Óskað hefur verið mánaðarfresti til viðbótar, við að klára viðræður milli WOW air og bandaríska félagsins Indigo partners, samkvæmt tilkynningu sem birst hefur á vef WOW air.
Í henni segir að reynt verði að ljúka viðræðum fyrir 29. mars.
Frestur sem skuldabréfaeigendur WOW air gáfu til að ljúka viðræðum, átti að renna út í dag.
Fundað hefur verið í allan dag vegna viðræðna félaganna tveggja, í höfuðstöðvum WOW air, en fjárfesting frá bandaríska félaginu er WOW air lífsnauðsynleg.
Frá því í haust hefur fjárhagsstaða WOW air verið erfið, og í desember greip fyrirtækið til þess að segja upp samtals 350 starfsmönnum til að hagræða í rekstri og endurskipuleggja starfsemina, á meðan viðræður við hið bandaríska félag stóðu enn yfir.
Hinn 81 árs gamli Bill Franke stýrir bandaríska fjárfestingafélaginu og má segja að það sé undir honum komið, að fjárfestingin í WOW air nái fram að ganga.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Á sama tímabili árið á undan nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi.
Mikið er í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf, enda hefur WOW air verið í lykilhlutverki við uppgang í ferðaþjónustu og efnahagslífi landsins, á undanförnum árum, og flutt til landsins 600 til 700 þúsund ferðamenn á ári, með tilheyrandi margfeldisáhrifum á efnahag landsins.