Rúmur helmingur landsmanna styður fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur í kjaradeilu þeirra við Samtök atvinnulífsins. Tæplega þriðjungur er þeim hins vegar andvígur. Þetta kemur fram í könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið. Könnunin var framkvæmd 28. febrúar til 1. mars.
Mikill stuðningur hjá kjósendum Flokks fólksins, Samfylkingarinnar og Pírata
Í könnuninni sögðust 55,6 prósent svarenda vera frekar eða mjög sammála verkfallsaðgerðunum. Tæpur þriðjungur eða um 31, 1 prósent sögðust vera frekar eða mjög ósammála þeim. Um 13,3 prósent svarenda sögðust vera hvorki hlynntur né andvígru þeim. Aðgerðirnar njóta mests stuðnings á Reykjanesi, eða hjá um 73 prósentum íbúa. Næst á eftir fylgja íbúar Norðurlands og Austurlands með rúm 60 prósent, samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins.
Þegar skoðaður er stuðningur innan stjórnmálaflokka þá mælist hann langminnstur hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins en aðeins fimmtungur þeirra styður aðgerðirnar. Næstminnstur er stuðningurinn hjá kjósendum Framsóknar og Viðreisnar. Hjá kjósendum Flokki fólksins, Samfylkingunni og Pírötum mælist stuðningur á bilinu 70 til 80 prósent. Rúm 60 prósent kjósenda Vinstri grænna eru einnig hlynnt verkfallsaðgerðunum. Um níutíu prósent þeirra sem kjósa flokka sem ekki eiga mann á þingi styðja aðgerðirnar.
Verkfallsaðgerðirnar ná til yfir 2000 manns
Síðasta föstudag samþykktu félagsmenn Eflingar boðun verkfalls þann 8. mars næstkomandi meðal hreingerningafólks á hótelum. Samtök atvinnulífsins hafa hins vegar höfðað mál fyrir Félagsdómi gegn Eflingu stéttarfélagi og krafist að boðað verkfall 8. mars næstkomandi verði dæmt ólögmætt. Þess er einnig krafist að Efling verði dæmt til greiðslu sektar í ríkissjóð vegna brota á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.
Fyrir helgi var síðan greint frá því að samninganefnd Eflingar hafði samþykkti á fundi að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall hjá hópbifreiðafyrirtækjum og á 40 hótelum á félagssvæði Eflingar. Sama dag tilkynntu VR að kosið yrðu hjá félagsmönnum VR um vinnustöðvun hjá tuttugu hótelum auk hópbifreiðafyrirtækja. Verkföllin dreifast á sex daga hjá verkalýðsfélögunum tveimur en þá er boðað til ótímabundinnar vinnustöðvunar frá 1. maí. Verkfallsaðgerðirnar ná til um 850 félaga hjá VR og um 1500 hjá Eflingu.
Samningaviðræður hjá ríkissáttasemjara
Á fimmtudaginn verða fjórtán dagar liðnir frá því að samningaviðræðum verkalýðsfélaganna fjögurra, Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins var slitið. En samkvæmt ríkissáttasemjara eiga deiluaðilar að hittast fjórtán dögum frá viðræðuslitum og því er að vænta fundar á fimmtudaginn hjá ofangreindum aðilum þó ekki sé búið að boða hann formlega.
Nóg er um að vera hjá ríkissáttasemjara þessa dagana en Starfsgreinasambandið, Landssamband íslenskra verslunarmanna og samflot iðnaðarmanna hafa fundað þar stíft við Samtök atvinnulífsins síðustu daga.