Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, lagði fram sömu fyrirspurnina á alla tólf ráðherra ríkisstjórnarinnar sem og forseta Alþingis síðastliðinn föstudag. Hann spyr hvaða dagblöðum, tímaritum og öðrum miðlum ráðuneytin – og stofnanir og aðrir aðilar sem heyra undir þau – séu í áskrift að, hversu margar áskriftir séu að hverjum miðli og hver heildarfjárhæð áskriftar sé á ári fyrir hvern miðil.
Fram kom í frétt Kjarnans í lok nóvember síðastliðins að ráðuneyti, ríkisstofnanir og fyrirtæki á vegum hins opinbera hefðu borgað tæpar 190 milljónir króna fyrir birtingu auglýsinga fyrstu tíu mánuði síðasta árs. Tvö fjölmiðlafyrirtæki, útgáfufélag Fréttablaðsins og Árvakur útgefandi Morgunblaðsins, fengu samtals tæplega þriðjung fjárins sem hið opinbera eyddi í auglýsingabirtingar.
Kostnaður hins opinbera vegna auglýsingabirtinga var 188 milljónir fyrstu tíu mánuði ársins 2018, þá var ekki talin með vinna við gerð og hönnun auglýsinga. Þar af fékk útgáfufélag Fréttablaðsins 37 milljónir króna greitt fyrir auglýsingabirtingar og Árvakur, útgefandi Morgunblaðsins og mbl.is, 21 milljón króna. Samanlagt var það rétt tæplega þriðjungur allra auglýsingakaupa ráðuneyta, ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja á tímabilinu.
Ríkisútvarpið fékk greiddar rúmar tólf milljónir og Sýn, sem á Stöð 2, ýmsar útvarpsstöðvar og vefinn Vísi, fékk fimm milljónir greiddar fyrir auglýsingabirtingar ríkisins.
Auglýsingastofan Pipar er í þriðja sæti yfir þau fyrirtæki sem fá mest greitt fyrir auglýsingabirtingar, með átján milljónir. Það er vegna birtingarþjónustu fyrirtækisins við ríkisstofnanir, einkum Háskóla Íslands. Pipar sér um auglýsingakaup fyrir viðskiptavini og greiðslurnar dreifast því áfram á önnur fyrirtæki.