Gengi krónunnar gagnvart evru og Bandaríkjadal hefur gefið verulega eftir á undanförnum mánuðum. Bandaríkjadalur kostar nú 121 krónu en evra 137 krónu. Fyrir rúmu ári kostaði Bandaríkjadalur um 100 krónur og evra 120 krónur.
Á einu ári hefur gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal veikst um tæplega 20 prósent.
Nýr veruleiki má segja að sé nú kominn fram í efnahagslífinu, hvað þetta varðar, og er þessi veiking krónunnar að einhverju leyti til marks um það.
Seðlabanki Íslands hefur þó staðið á bremsunni gagnvart frekari veikingu undanfarin misseri með margítrekuðum inngripum á markaði, nú síðast í dag upp á um sex milljónir evra, eða sem nemur um 820 milljónum króna.
Bankinn hefur sýnt með þessu að hann er tilbúinn til að koma í veg fyrir að krónan veikist hratt með tilheyrandi verðbólguskoti og ójafnvægi.
Mikill forði bankans, yfir 700 milljarðar, eftir uppgang í efnahagslífinu á undanförnum árum, nýtist vel að þessu leyti.
Kólnun í kortum
Samkvæmt flestum hagspám er nú kólnun í kortunum eftir mikið uppgangstímabil þar sem ferðaþjónusta hefur verið miðpunktur hagvaxtarskeiðsins. Hagvöxtur í fyrra var 4,6 prósent en gert er ráð fyrir að hann verði þó nokkuð minni á þessu ári eða bilinu 1,5 til 3 prósent.
Verðbólga mælist þrjú prósent og meginvextir Seðlabanka Íslands eru 4,5 prósent.
Undirliggjandi staða þjóðarbússins er sterk og afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum hefur verið viðvarandi.
Í nýjustu Hagsjá Landsbankans segir að afgangurinn af vöru- og þjónustuviðskiptum á síðasta ári, upp á 86,5 milljarða króna, hafi verið nokkru meira en reiknað hafði verið með. „Fyrir lá að það yrði 159,2 ma.kr. halli af vöruskiptajöfnuði, 245,7 ma.kr. afgangur af þjónustujöfnuði, og því 86,5 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd. Afgangur af þáttatekjujöfnuði reyndist vera 16,8 ma.kr. en hallinn af rekstrarframlögum var 21,9 ma.kr. Þetta skýrir 5,1 ma.kr. lægri afgang af viðskiptajöfnuði en af vöru-og þjónustu. Þetta er nokkuð meiri afgangur en við bjuggumst við, en í þjóðhagsspá okkar í október gerðum við ráð fyrir um 50 milljarða króna afgangi fyrir árið í heild.“
Í fyrrnefndri spá bankans er gert ráð fyrir áframhaldandi afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum, en þó nokkuð mikið minni en það sem hefur verið uppi á teningnum á undanförnum árum. Samkvæmt spánni verður afgangurinn um 30 milljarðar á árunum 2019 til 2021.
Margt getur leitt til verri stöðu, og má þar nefna loðnubrest, en útlit er fyrir að engin verðmæti skili sér í þjóðarbúið vegna sölu á loðnu úr landi inn á alþjóðamarkaði, af þeirri vertíð sem annars væri í gangi þessi misserin. Það munar um minna, því heildarverðmæti vegna loðnuviðskipta hafa verið á bilinu 18 til 30 milljarðar á ári, miðað við tölur Hagstofu Íslands, á árunum 2015, 2016 og 2017.
Helsta óvissan í efnahagslífinu snýr nú að tveimur þáttum.
Annars vegar kjaraviðræðum og hins vegar fjárhagsstöðu WOW air.
Að óbreyttu, ef ekki tekst að ná samningum í þessari viku, þá hefjast víðtækar verkfallsaðgerðir um helgina.
WOW air og bandaríska félagið Indigo Partners ætla að taka sér frest til loka mánaðar, til 29. mars, til að reyna að ná samkomulagi um fjárfestingu síðarnefnda félagsins í WOW air.
Fjárhagsstaða WOW air er afar þröng, eins og félagið hefur sjálft greint frá, en félagið hefur ekki skilað mótframlagsgreiðslum vegna lífeyrisgreiðslna starfsfólks í þrjá mánuði, en félagið hyggst koma þeim greiðslum í skil í þessum mánuði, samkvæmt yfirlýsingu félagsins í dag.
WOW air hefur verið í burðarhlutverki í miklum efnahagsuppgangi síðustu ári, en með félaginu hafa komið til landsins á bilinu 600 til 700 þúsund ferðamenn á ári, með tilheyrandi margfeldisáhrifum á hagkerfið. Heildarfjöldi ferðamanna var í fyrra um 2,3 milljónir.
Mikið er í húfi fyrir hagkerfi landsins, þegar kemur að WOW air, og eru stjórnvöld að fylgjast grannt með stöðu mála, eins og fram hefur komið á vef Kjarnans.