WOW air hefur ekki greitt mótframlag í lífeyris- og séreignasparnað í þrjá mánuði, en félagið vonast til þess að koma því í skil í þessum mánuði, af því er haft er eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, á Vísi.
Fyrirtækið hefur átt í miklum lausafjárerfiðleikum og hefur ekki getað staðið skil á fyrrnefndum greiðslum vegna þessa.
Um er að ræða greiðslur vegna nóvember og desember síðasta árs auk janúar þessa árs en þær eru allar komnar fram yfir eindaga.
Eins og greint var frá fyrir helgi, þá ætla WOW air og bandaríska félagið Indigo Partners að taka sér mánuð til viðbótar, til 29. mars, til að reyna að ná samkomulagi um fjárfestingu síðarnefnda félagsins í WOW air.
Stjórnvöld fylgjast nú náið með stöðunni, eins og greint hefur verið frá í umfjöllun Kjarnans, og það við um ríkisstjórn, yfirmenn Samgöngustofu, ISAVIA og eftirlitsstofnanna í fjármálakerfinu, Seðlabankans og FME.
Ríkisstjórnin átti fund seinni partinn á fimmtudaginn síðastliðinn, þar sem málefni er tengdust WOW air voru meðal annars rædd, þó fundurinn hafi verið boðaður af öðru tilefni.
Í ljósi þess að staða WOW air er metin fallvölt, samkvæmt heimildum Kjarnans, ef ekki tekst að útvega félaginu fjármagn á næstu misserum, þá hafa yfirvöld sett sig í þær stellingar að illa geti farið en vonir standa þó alltaf til þess að það takist að tryggja fjármögnun félagsins.
WOW air tapaði 33,6 milljónum dala, sem jafngildir um 4,2 milljarði króna, á fyrstu níu mánuðum ársins í fyrra. Á sama tímabili árið á undan nam tap félagsins 13,5 milljónum dala, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi.