Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir fer upp um 90 sæti á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins á milli ára. Í fyrra var Björgólfur Thor í 1.215 sæti en er nú í 1.116 sæti á nýjum lista Forbes sem birtur var í dag. Björgólfur Thor er eini Íslendingurinn á listanum, og reyndar eini Íslendingurinn sem hefur nokkru sinni komist á hann. Auður hans er metinn á 2,1 milljarð dala eða um á 254 milljarða króna.
Eignir Bezos nema nú 131 milljarði dala
Stofnandi Amazon, Jeff Bezos, er áfram á toppi lista Forbes yfir auðugasta fólk heims en næstir á eftir honum koma þeir Bill Gates og Warren Buffett. Samkvæmt nýrri úttekt Forbes hafa eignir Bezos aukist um 19 milljarða Bandaríkjadala undanfarið ár og nema nú 131 milljarði dala. Fyrsta konan á listanum er í fimmtánda sæti en það er Françoise Bettencourt Meyers, ríkasta kona heims en eignir hennar eru metnar á 49,3 milljarða Bandaríkjadala. Bettencourt-fjölskyldan er aðaleigandi franska snyrtivörufyrirtækisins L'Oreal. Í samantekt Forbes segir að í ár fækkaði milljarðamæringunum um 55 og eru nú um 2153 milljarðamæringar í heiminum. Í heildina duttu 247 manns af listanum milli ára en það er hæsta talan frá árinu 2019.
Björgólfur Thor sat einu sinni í 249. sæti listans
Árið 2007 var Björgólfur Thor Björgólfsson í 249. sæti yfir ríkustu menn veraldar á lista Forbes. Ári síðar, eftir hrun fjármálakerfisins lá fyrir að Björgólfur Thor var í persónulegum ábyrgðum vegna skulda sem námu minnst 40 milljörðum króna. Skömmu eftir hrun hófust viðræður milli Björgólfs Thors og trúnaðarmanna hans, og síðar fulltrúa lánardrottna sem áttu kröfu á Björgólf Thor og félög hans.
Í ágúst 2014 var síðan tilkynnt að skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar væri lokið og að hann hefði greitt kröfuhöfum sínum, að mestu stórum alþjóðlegum bönkum, samtals um 1.200 milljarða króna. Þessi uppgjör tryggði honum mikinn auð þar sem hann fékk að halda góðum eignarhluta í Actavis að því loknu. Sá eignarhluti hefur gert Björgólf Thor ævintýralega ríkan á ný. Björgólfur Thor gaf árið 2015 út bók um fall sitt og endurkomu. Kjarninn birti umfjöllun um bókina skömmu eftir að hún kom út.
Í umfjöllun Forbes segir að Björgólfur eigi hlut í pólska fjarskiptafyrirtækinu Play en það er á meðal stærstu farsímafyrirtækja Póllands. Tilkynnt var um það sumarið 2017 að Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors, ætlaði að selja tæplega helmingshlut í Play, sem þá var metið á 261 milljarð króna. Í umfjöllun Forbes kemur einnig fram að Björgólfur eigi einnig hluti í WOM frá Síle. Auk þess hafi hann fjárfest í rafmynt og sprotafyrirtækjunum á borð við Zwif, BeamUp og Deliveroo.