Heildarlaun Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia, hafa hækkað um 43,3 prósent frá því að ákvörðun launa var færð frá kjararáði árið 2017 til stjórnar fyrirtækisins á ný. Launin hafa því hækkað úr 1.748.000 krónum á mánuði í nóvember 2017 í 2.504.884 í maí 2018. Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um hvernig fyrirtækið hefði brugðist við tilmælum sem beint var til fyrirtækja í ríkiseigu í janúar 2017 er varðar launaákvarðanir og starfskjör framkvæmdastjóra.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið óskaði eftir upplýsingunum
Fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi 12. febrúar síðastliðinn bréf til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins þar sem óskað var upplýsingum launaákvarðanir og starfskjör framkvæmdastjóra. Í bréfinu var fyrirtækjunum gefinn vikufrestur til að svara. Isavia var meðal þeirra fyrirtækja en Isaiva er opinbert hlutafélag og að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Félagið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi auk þess sem það stýrir flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu.
Í svari Isavia við fyrirspurn ráðuneytsins segir að í byrjun árs 2017 barst stjórn Isavia bréf frá fjármála og efnahagsráðuneytinu varðandi ákvörðun launakjör forstjóra fyrirtæksins. Í bréfinu var bent á þá skyldu stjórnar að við ákvörðun launa og starfskjara yrði almennt fylgt ákvæðum eigendastefnu ríkisins um að félög í eigu ríkisins settu sér hóflega en samkeppnishæfa launastefnu sem sé ekki leiðandi. Í kjölfarið aflaði stjórn Isavia úttektar hjá ráðgjafafyrirtækinu Intellecta sem sérhæfir sig í að kanna launum forstjóra fyrirtækja í því skyni að fá fram viðmið til að vinna út frá við ákvörðun launa. Intellecta skilaði mati sem byggði á fyrirtækjum með svipaða veltu og fjárhagslega stjórnunarábyrgð og Isavia og niðurstaðan var sú að laun forstjóri í sambærilegu fyrirtæki væru á bilinu 3,1 til 4,1 milljón króna.
Stjórn Isavia leit svo á að hækkun í neðstu mörk mats Intellica væri of mikil í einu skrefi og ekki í samræmi við eigendastefnu og tilmæli um varkárni við ákvörðun launa, segir í bréfinu. Á fundi stjórnar 26. september 2017, samþykkti stjórnin að fela formanni að endurnýja ráðningarsamning við forstjóra í samræmi við samþykkt tillögu starfskjaranefndarinnar. Á fundi stjórnar þann 2. nóvember 2017 samþykkti stjórnin nýjan ráðningarsamning þar sem laun forstjóra félagsins voru ákveðin 2.380.000 krónur frá og með 1. júlí 2017. Fyrir voru laun forstjóra 1.748.000 og nam launabreytingin því 36,1 prósent. Samhliða því var ákveðið í samræmi við ákvæði starfskjarastefnu Isavia og ráðningarsamning forstjóra félagsins að endurmeta laun forstjóra á árinu 2018. Á stjórnarfundi 20. desember 2018 var síðan samþykkt tillaga starfskjaranefndar um að laun forstjóra skyldu hækka um 2,3 prósent frá 1. janúar 2018 og um 3 prósent frá l. maí 2018 í samræmi við ákvæði almennara kjarasamninga. Heildarlaun forstjóra Isavia hafa því hækkað alls um 43,4 prósent frá því ákvörðun launa var færð kjararáði árið 2017 og til dagsins í dag.
Í svarinu kemur jafnframt fram að auk þess að byggja á launaákvörðunina á framangreindri ráðgjöf Intellecta þá tók stjórnin mið af ákvörðun kjararáðs á tímabilinu 2013 til 2017 með hækkun launa aðila sem féllu undir úrskurðarsvið ráðsins. Forstjóri Isavia er eins og fyrr segir Björn Óli Hauksson en hann hefur gegnt starfinu frá upphafi rekstrar árið 2018.
Ráðuneytið bað um varkárni
Fyrir liggur að stjórnvöld óttuðust launaskrið hjá æðstu stjórnendum fyrirtækja í opinberri eigu í kjölfar þess að ákvörðunarvald yfir launum þeirra var fært frá kjararáði. Í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi stjórnum fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins í janúar 2017 var þeim tilmælum beint til þeirra að stilla öllum launahækkunum forstjóra í hóf eftir að ákvarðanir um laun þeirra færðust undan kjararáði um mitt ár í fyrra. Þar stendur að ástæða hafi verið til þess að „vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að stjórnir hafi í huga áhrif launaákvarðana á stöðugleika á vinnumarkaði og ábyrgð félaganna í því sambandi. Æskilegt er að launaákvarðanir séu varkárar, að forðast sé að ákvarða miklar launabreytingar á stuttu tímabili en þess í stað gætt að laun séu hækkuð með reglubundnum hætti til samræmis við almenna launaþróun.“
Afrit af bréfinu var sent til allra stjórnanna daginn áður en að ný lög um kjararáð, sem færðu launaákvörðunarvald frá ráðinu til stjórna opinberu fyrirtækjanna, tóku gildi í byrjun júlí 2017. Þá fundaði Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, með formönnum stjórna stærri félaga þann 10. ágúst 2017 og var þar farið yfir efni bréfsins. Hægt er að lesa það hér.