Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, segist misboðið fyrir hönd þeirra borgara sem hlut eiga að máli vegna Samherjamálsins svokallaðs en hann kom fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun. Umfjöllunarefni fundarins var lög um gjaldeyrismál og stjórnsýslu Seðlabanka Íslands.
Umboðsmaður sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf þann 4. mars síðastliðinn sem birtist á vefsíðu hans í dag.
Í bréfi sínu til ráðherra beinir hann sjónum sínum að bréfi Más Guðmundssonar seðlabankastjóra til Katrínar sem hann sendi þann 29. janúar síðastliðinn. Í frétt um bréfið á vefsíðu ráðuneytisins segir að þar sé fjallað um þá lærdóma sem að hans mati beri að draga af reynslunni við framkvæmd gjaldeyriseftirlits á vegum Seðlabanka Íslands í tengslum við áformaða sameiningu seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Fram kemur að í bréfinu sé varpað ljósi á sum þeirra atriða sem hafi verið í umræðu í framhaldi af áliti hans sem birt var þann 25. janúar síðastliðinn og greinargerð bankaráðs seðlabankans sem birt var 26. febrúar síðastliðinn.
Tryggvi telur að tiltekin ummæli í bréfi seðlabankastjóra og upplýsingar sem honum hafi borist eftir opinbera birtingu bréfsins séu honum tilefni til þess að rita bréfið til Katrínar.
Hann vekur athygli á orðum seðlabankastjóra í bréfi hans til forsætisráðherrans um markmið með framkvæmd fjármagnshaftanna: „Má í því sambandi ekki gleyma því að aðgerðir Seðlabankans höfðu töluverð fælingaráhrif. Þetta mátti t.d. glögglega sjá eftir húsleitina hjá Samherja þó svo ekki hafi verið hugsað út í það fyrirfram, enda ekki lögmætt sjónarmið í þessu samhengi,“ sagði Már í bréfi sínu.
Veltir tilgangi upplýsingagjafar fyrir sér
Tryggvi segist hafa fengið nánari upplýsingar um samskipti starfsmanna Seðlabanka Íslands og Ríkisútvarpsins í aðdraganda húsleitarinnar eftir að greint hafi verið frá bréfi seðlabankastjóra á vef bankans. „Þessar upplýsingar gefa að mínu áliti tilefni til að kallað verði eftir hver var í raun hlutur starfsmanna gjaldeyriseftirlits Seðlabankans í að upplýsa starfsmann Ríkisútvarpsins um hina fyrirhuguðu húsleit. Þá tel ég þörf á að ganga eftir því við Seðlabanka Íslands hver hafi tekið ákvörðun um að veita upplýsingar og hver hafi verið aðkoma og vitneskja yfirstjórnar bankans um þessi samskipti við Ríkisútvarpið,“ segir hann í bréfinu.
Hann veltir því einnig fyrir sér hvort að baki þessari upplýsingagjöf hafi legið sjónarmið af því tagi sem seðlabankastjóri lýsir í bréfi sínu til Katrínar og vitnað var til hér að framan.
Tryggvi segir að orðalag Más veki upp álitamál hvaða tilgangur hafi í raun búið að baki því að upplýsingar um húsleitina og birta og dreifa frétt um hana með þeim hætti sem gert var í þessu máli.
Í bréfinu til Katrínar óskar hann eftir upplýsingum frá ráðuneyti forsætisráðherra um hvort fyrirhugað sé að þau atriði sem fjallað er um í bréfinu komi til athugunar við boðaða athugun ráðuneytisins. „Þetta geri ég m.a. til að geta að fengnu svari ráðuneytisins tekið afstöðu til þess hvernig ég bregst við í tilefni af þeim upplýsingum sem mér hafa verið látnar í té undir þeirri vernd sem 18. gr. laga nr. 85/1997 hljóða um,“ segir hann.
Hann óskar eftir svari við bréfinu sem allra fyrst eða eigi síður en 20. mars næstkomandi.