Ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti hafa leitt af sér að stóraukin áhersla er nú lögð á rannsóknir vegna gruns um slíkt athæfi hjá þeim embættum sem þeim sinna.
Skattrannsóknarstjóri birti frétt á vef sínum 26. febrúar síðastliðinn þar sem embættið fór yfir aðgerðir sínar vegna peningaþvættis á undanförnum árum. Þar kom fram að 37 peningaþvættismál hefðu verið skráð hjá embættinu á árunum 2016 til 2018. Meirihluti þeirra, eða 20 talsins, voru skráð í fyrra.
Á árinu 2018 lauk rannsókn í alls sex málum sem áttu rætur að rekja til greininga peningaþvættisskrifstofu. Í fréttinni sagði að gera megi ráð fyrir að ríkissjóður hafi orðið af á 178 milljónum króna í skatttekjur einungis af þessum sex málum. „Nú eru á annan tug mála til meðferðar og í ljósi áherslu stjórnvalda á þennan málaflokk verður á næstu misserum lagður aukinn kraftur í rannsóknir þessara mála hjá skattrannsóknarstjóra.“
RÚV greindi svo frá því á miðvikudagskvöld að tilkynningar vegna grunsamlegra peningafærslna til peningaþvættisskrifstofu héraðssaksóknara, sem nú heitir skrifstofa fjármálagreininga lögreglu) hafi margfaldast á síðustu árum. Árið 2015 hafi þær verið 158 en í fyrra hafi fjöldi þeirra verið tæplega áttfalt fleiri, eða um 1.200 talsins. Þar var haft eftir Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara að helsta skýring þessa væri sú að höftin hafi verið afnumin árið 2017 og þá hafi fjármálafærslur aukist í framhaldinu. „Á sama tíma er verið að hvetja fjármálastofnanir og tilkynningarskylda aðila til þess að senda og gera viðvart þegar þeir sjá eitthvað grunsamlegt. Síðan hefur sú eining sem vinnur við þetta hjá okkur verið stækkuð sem gerir okkur fær um að herða aðeins á þessu.“
Þar kom enn fremur fram að fjölgun tilkynninga hafi leitt til fleiri rannsókna að hálfu lögreglu og að fyrirséð væri að málafjöldi muni halda áfram að aukast með aukinni fræðslu og eftirliti sem stefnt sé að.
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu mála hvað varðar varnir gegn peningaþvætti í fréttaskýringu sem birtist í morgun. Þessi frétt er hluti af þeirri umfjöllun.
Hér að neðan má sjá brot úr viðtali við Ólaf Þór Hauksson héraðssaksóknara í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut frá því í október 2018 þar sem hann ræðir meðal annars peningaþvætti á Íslandi.