„Það voru 36 milljarðar lausir. Þannig að við höfum verið að búa okkur undir það að það séu bara 36 milljarðar sem flæði núna út á mjög stuttum tíma. En af mörgum ástæðum þótti okkur betra að komast hjá því að við þessa 36 bættust 25.“
Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni, þar sem þeir ræddu um nýsett lög sem heimiluðu aflandskrónueigendum að fara með eignir sínar úr landi. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Frumvarpið sem var samþykkt fól í sér að heimila eftirstandandi aflandskrónueigendum að fara út með eignir sínar og lækkaði sömuleiðis bindingahlutfall á reiðufé sem kemur hingað til lands úr 20 prósent í 0 prósent.
Miðflokkurinn lagðist í málþóf á Alþingi gegn því að frumvarpið yrði samþykkt og tafði með því afgreiðslu þess. Seðlabankinn hafði varað við því að afgreiða þyrfti frumvarpið áður en að ákveðinn skuldabréfaflokkur kæmi á gjalddaga 26. febrúar, annars myndi Seðlabankinn þurfa að eyða meiri forða til að koma í veg fyrir gengisfall íslensku krónunnar í tengslum við losun aflandskróna vegna þess að 25 milljarðar aflandskróna hefðu getað losnað.
Seðlabankinn greip inn í gjaldeyrismarkaðinn á þriðjudag og keypti gjaldeyri fyrir 2,5 milljarða króna til að vinna gegn veikingu íslensku krónunnar. Már sagði að Seðlabankinn ráði þó vel við það útflæði sem gæti orðið. „Aðilar á markaði hafa verið að kvarta undan því að hin sérstaka bindiskylda á fjármagnsinnstreymi, að hún væri að trufla virkni markaðarins vegna þess að það væri skortur á framboði og það þyrfti fleiri fjárfesta inn á þennan markað, og líka erlenda fjárfesta. Að mínu mati var sumt af þessu svolítið ofsagt hjá þeim, en það var svolítið til í þessu, að því að það voru aðrar ástæður fyrir því sem var að gerast á markaðnum. En ef það hefði bæst við að þessir 25 milljarðar væru að fara út, þá hefði hlutdeild erlendra fjárfesta í skuldabréfamarkaðnum, sem er mjög lág hér á Íslandi miðað við annars staðar, og þarf kannski að vera lág vegna þess að við erum viðkvæmari markaður, hún hefði lækkað enn frekar og farið langt niður fyrir þessi öryggismörk sem við þurfum að hafa á því.“