„Það eru áhættuþættir sem tengjast því að hér myndist mikill efnahagslegur óstöðugleiki og væntingar þróast um að gengi krónunnar muni lækka all verulega. Ef það gerist þá eru einhverjir sem vildu losna út áður en það gengisfall ætti sér stað.“
Þetta sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni, þar sem þeir ræddu um stöðu efnahagsmála og mögulegan flótta fjármagns úr landi með tilheyrandi veikingu krónunnar.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan:
Már segir að það sé auðvitað til staðar óvissa sem tengist kjarasamningum, en slíkum hefur enn ekki verið náð á vinnumarkaði og verkföll eru hafin.
Sú lækkun sem orðið hefur á gengi krónunnar frá því í haust hafi hins vegar verið velkomin „Við vorum með áhyggjur af því á fyrri hluta síðasta árs að krónan væri kannski komin upp fyrir sitt jafnvægi. Síðan á haustmánuðum þá koma þessar áhyggjur um flugreksturinn, náttúrulega WOW air, og endurmat á allri stöðu efnahagslífsins. Viðskiptakjörin höfðu versnað og efnahagshorfurnar orðnar verri. Þá var bara eðlilegt að gengið bregðist við því. Að mestu leyti var sú gengislækkun bara leiðrétting miðað við þessar nýju aðstæður.“