Eignir skráðra félaga á Íslandi nema nú 2.523 milljörðum króna, sé mið tekið af nýjustu upplýsingum í uppgjörum þeirra, en það er upphæð sem nemur um 2,5 sinnum markaðsvirði þeirra um þessar mundir, sem er um þúsund milljarðar króna. Það er upphæð sem nemur um 7,1 milljón á hvern Íslending.
Stærstur hluti eigna skráðu félagana, eða 46,1 prósent, liggur í eignum Arion banka, og eru þar útlán til heimila og fyrirtækja langsamlega stærsti hlutinn.
Efnahagsreikningar banka eru mun stærri en hjá flestum öðrum fyrirtækjum, eins og gefur að skilja í ljósi eðlis rekstursins, og því hefur staða Arion banka afgerandi áhrif á heildarmyndina hvað varðar eignir skráðu félaganna. Bankinn er einnig skráður á markað í Svíþjóð, en hjartað í starfseminni er enn sem komið er nær eingöngu á Íslandi.
Í umfjöllunum Kjarnans undanfarið hefur verið varpað ljósi á stöðu íslenska hlutabréfamarkaðarins um þessar mundir, meðal annars hvað varðar eigið fé skráðu fyrirtækjanna og einnig skuldastöðu. Sé litið til þessara mælikvarða þá er skuldsetning meðal skráðra íslenskra félaga frekar hófleg og eiginfjárstaða, í samhengi við markaðsvirði þeirra, nokkuð sterk.
Nýr markaður með aðrar stoðir
Sé litið til eignasamsetningar markaðarins - kjölfestunnar í rekstrinum - þá er stór hluti af hinum skráða markaði bundin við íslenska markaðinn, og vaxtartækifæri að því leytinu til takmörkuð. Marel, Origo, Eimskip, HB Grandi og Icelandair eru alþjóðleg fyrirtæki í þeim skilningi að langstærstur hluti starfsemi þeirra tengist alþjóðlegum viðskiptum og uppruni tekna er erlendis. Vegna umfangs ferðaþjónustunnar í íslenska hagkerfinu má segja að flest fyrirtækin á íslenska markaðnum séu með einum að öðrum hætti tengd viðskiptum við útlönd, en vaxtartækifæri sumra þeirra erlendis eru takmörkuð, nema að teknar séu ákvarðanir um að fara í útrás á erlenda markaði með vörur eða þjónustu.
Hið alþjóðlega mikilvægi
Í alþjóðlegu samhengi er hlutverk skráðs markaðar í hagkerfinu afar viðamikið og margslungið. Í stuttu máli mætti kalla skráða markaði og kauphallir eins konar brýr fyrir fjármagn, meðal annars til að styrkja undirstöður samfélagsins, bæði fyrirtæki og hið opinbera. Þannig eru skráðir markaðir miðpunktur ávöxtunarmarkaða fyrir lífeyrissjóði og fjármagn yfirleitt.
Ísland á mikið undir skráða markaðnum íslenska, jafnvel þó hann sé með þeim allra minnstu í heiminum. En í alþjóðavæddum heimi geta verið mikil tækifæri fyrir góðar hugmyndir og vel rekin fyrirtæki, sem horfa á heiminn sem einn markað.
Dæmi um svæði í heiminum þar sem skráður markaður hefur gegnt lykilhlutverki við að byggja upp fyrirtæki og ný atvinnutækifæri, er Washington ríki í Bandaríkjunum.
Það er svipað langt frá Wall Street í New York - sem er hjartað í skráðum markaði í huga margra -og Ísland, en mikil áhersla á að nýta skráðan markað til vaxtar hefur umbreytt svæðinu í miðpunkt þekkingar á vexti, ekki síst í viðskiptum þar sem internetið er kjarninn í starfseminni. Í ríkinu, þar sem búa um 7 milljónir manna, eru mörg af stærstu fyrirtækjum heimsins með rætur og höfuðstöðvar, eftir að hafa verið þar stofnuð.
Tvö af þremur verðmætustu fyrirtækjum heimsins, Microsoft og Amazon, voru bæði stofnuð þar og hafa þar höfuðstöðvar. Nefna má fleiri risa, eins og Starbucks, Costco, Nordstrom og Boeing. Þrátt fyrir þetta er vinnumarkaðurinn fremur lítill í samanburði við marga aðra, tekur til þriggja milljóna.
Sé litið einungis til eigna Microsoft, sem eru 241 milljarður Bandaríkjadala um þessar mundir, eða sem nemur 29 þúsund milljörðum króna, þá eru heildareignir á hvern íbúa í Washington ríki um 4,1 milljón, sé miðað við núverandi gengi. Til viðbótar koma síðan öll hin fyrirtækin sem hafa orðið til á svæðinu og nýtt skráðan markað til vaxtar, 77 talsins.
En segir samanburður eins og þessi einhverja sögu? Já og nei.
En kannski helst þá, að það getur verið mikið í húfi fyrir lítið land eins og Ísland, að ná að skapa jarðveg fyrir fyrirtæki til að taka næsta skref í vexti og tengjast erlendum mörkuðum betur. Það getur smitað verulega út frá sér inn í efnahagslífið.
Ekki einungis í gegnum verðmætara hlutafé, heldur ekki síður með því að skapa fordæmi fyrir aðra og skapa meiri þekkingu á því hvernig megi nýta skráða markaði til að ná til fleiri viðskiptavina og fjárfesta.
Marel og Össur hafa náð þessum árangri, en spyrja má hvort ekki sé kominn tími á að það komi fram fleiri fyrirtæki á Íslandi sem ná alþjóðlegri stærð. Össur verður 50 ára 2022 og Marel er 35 ára og hefur nýtt sér skráðan markað frá árinu 1992.
Þarf fleiri erlenda fjárfesta
Eitt af því sem hefur gengið illa á íslenska markaðnum, miðað við erlenda markaði, er að efla áhuga erlendra fjárfesta á markaðnum, þannig að hingað streymi erlent fjármagn til að örva efnahagslífið.
Sé horft til þessara þátta, sem Kjarninn hefur fjallað um, þá er íslenska kauphöllin með ýmislegt fram að færa fyrir erlenda fjárfesta, meðal annars allt aðra að heilbrigðari rekstrarþætti en voru fyrir hendi á markaðnum fyrir um áratug, þegar hann svo til alveg féll saman með hruni bankakerfisins.
Hægt og bítandi hefur verið að byggjast upp markaður með traustari stoðir, en um leið fremur fá vaxtartækifæri, með fáum vegamiklum undantekningum, eins og Marel er dæmi um. Það félag hefur nú þegar tilkynnt um að það sé að fara tvískráningarleið og skrá hlutabréf til viðskipta í Euronext kauphöllinni í Amsterdam á næstu mánuðum.
Eftir slæmt ár á hlutabréfamarkaði í fyrra þá hefur ávöxtun vísitölu markaðarins, OMX 18, hækkað töluvert nú í byrjun ársins, eða um 13,21 prósent. Munar þar mikið um skarpa hækkun á markaðsvirði Marel, en það hefur aukist um 35 prósent frá áramótum og nemur nú 321 milljarði króna.