Þrjátíu og þrír þingmenn hvaðanæva að úr heiminum vilja að stofnað verði nýtt fulltrúaþing Sameinuðu þjóðanna. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, er einn þeirra sem skrifar undir áskorun þess efnis en frá þessu var greint í frétt The Guardian í síðustu viku.
Smári segir í samtali við Kjarnann að hugmyndin hafi sprottið upp í gegnum samtal þingmanna um heim allan. Margir af þeim hafi talið að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna starfi ólýðræðislega og að bæta þyrfti úr því. Almenningur viti ekki hvert hlutverk þingsins sé og að stærstu ríkin taki ekki mark á því, til að mynda Bandaríkin og Kína.
Hugmyndin sé sú að gera Allsherjarþingið að einhvers konar efri deild og búa til neðri deild með beinum kosningum í hverju landi. „Þetta mun færa stofnunina nær almenningi,“ telur Smári og bætir því við að hún myndi hafa í framhaldinu meira vægi í alþjóðlegu samhengi. Hann segir að Ísland myndi hugsanlega fá tvo fulltrúa á þingið og myndi það hjálpa smærri ríkjum að nýta þennan vettvang.
Tilgangurinn að auka lýðræðislega aðkomu almennings
Í frétt The Guardian kemur fram að tilgangur þingsins yrði að auka lýðræðislega aðkomu almennings að heimsmálunum og ákvarðanatöku Sameinuðu þjóðanna. Í áskorun þingmannanna segir að Sameinuðu þjóðirnar og lýðræði liggi undir árásum. „Hinir vanalegu viðskiptahættir og háleit orðræða duga ekki til að mæta þessari ógn. Þrátt fyrir margar viðvaranir og ráðleggingar hefur lítið verið gert til að búa Sameinuðu þjóðirnar undir þessa áskorun. Tíminn fyrir sinnuleysi og umkvartanir er liðinn. Nú er þörf fyrir djarfa forystu,“ segir á áskoruninni.
Varað hefur verið við því að Sameinuðu þjóðirnar þyrftu að gera meira til að styrkja stjórnsýslu á heimsvísu og takast á við lýðræðishalla. Nefnd sem fjallaði um málið fyrir um fimmtán árum síðan fullyrti að markvissara samstarf með þingmönnum, þjóðþingum og bæjarfélögum á vegum Sameinuðu þjóðanna myndi styrkja stjórnsýsluna á heimsvísu, takast á við lýðræðishalla í samskiptum milli ríkisstjórna, treysta fulltrúalýðræðið í sessi og tengja Sameinuðu þjóðirnar betur inn í almenningsálitið. Núverandi fyrirkomulag dygði ekki til.
Vilja koma hnattvæðingunni undir lýðræðislega stjórn
Þegar alþjóðleg herferð fyrir fulltrúaþing á vegum Sameinuðu þjóðanna (UNPA) var sett á laggirnar fyrir ellefu árum síðan sagði verndari samtakanna, Boutros Boutros-Ghali, að stuðla þyrfti að lýðræðisvæðingu hnattvæðingar áður en hnattvæðingin næði að eyðileggja stoðir lýðræðisins.
„Nú horfum við áhyggjufull upp á þessa þróun eiga sér stað. Stofnun fulltrúaþings á vegum Sameinuðu þjóðanna er orðin ómissandi liður í þeirri viðleitni að koma hnattvæðingunni undir lýðræðislega stjórn.
Við, undirritaðir þingmenn, ítrekum stuðning okkar við það markmið að stofna UNPA til að auka lýðræðislega aðkomu almennings að heimsmálunum og ákvarðanatöku Sameinuðu þjóðanna.
Við bjóðum öðrum lýðræðislega kjörnum þingmönnum hvaðanæva að úr veröldinni að ganga til liðs við UNPA-þinghópinn okkar til að styrkja og samhæfa viðleitni okkar. Saman getum við myndað þann pólitískan skriðþunga og þrýsting sem nauðsynlegur er til að ná markmiði okkar,“ segir í áskorun þingmannanna.
Vilja víðtækar umbætur á næsta ári
Þingmennirnir eru þeirrar skoðunar að nota beri 75 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna árið 2020 sem tækifæri til að taka mið af aðstæðum og hleypa af stokkunum víðtækum umbótum, þar á meðal stofnun UNPA.
Þau kalla jafnframt eftir því að aðalritari Sameinuðu þjóðanna, forseti Allsherjarþingsins, þjóðhöfðingjar og ríkisstjórnir þeirra og utanríkisráðuneyti, auk fulltrúa aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í New York, hefji nauðsynlegar aðgerðir til að undirbúa áhrifaríkan leiðtogafund til umbóta og til að stofna UNPA.