Icelandair Group hefur ákveðið að taka Boeing 737 MAX 8 flugvélar sínar úr rekstri um óákveðinn tíma. Félagið er með þrjár slíkar vélar í rekstri. Félagið fylgist náið með þróun mála og vinnur áfram með flugmálayfirvöldum á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum varðandi næstu skref.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.
„Miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir, þá öryggisferla sem félagið fylgir, sem og þjálfun áhafna þess, telur félagið vélarnar öruggar.
Til skamms tíma mun þessi ráðstöfun hafa óveruleg áhrif á rekstur félagsins þar sem aðeins er um 3 vélar að ræða af 33 farþegavélum í flota félagsins og því hefur félagið svigrúm til að bregðast við á næstu vikum,“ segir í tilkynninginni.
Bretar banna ferðir flugvélanna um lofthelgi sína
Flugmálayfirvöld í Bretlandi bönnuðu í dag þotum af gerðinni Boeing 737 MAX 8 að lenda og taka á loft frá flugvöllum í landinu. Bretar eru fyrstir Evrópuþjóða til að banna ferðir flugvéla af þessari gerð um lofthelgi sína. Norska flugfélagið Norwegian hefur einnig kyrrsett allar sínar vélar, að því er tilkynnt var síðdegis og birtist í frétt RÚV um málið.
Umferð flugvéla af þessari gerð hefur áður verið bönnuð í Kína, Suður-Afríku, Singapúr, Indónesíu, Ástralíu, Brasilíu og Mexíkó. Þá hefur suðurkóreska flugfélagið Eastar Jet kyrrsett allar 737 MAX átta þotur sínar.