Landsréttur hefur ákveðið að fresta dómsmálum þar sem einhver hinna fjögurra dómara, sem Sigríður Á. Andersen skipaði í embætti dómara við Landsrétt í stað þeirra fjögurra sem sérstök dómnefnd mat hæfasta, eiga sæti í út þessa viku. Þetta staðfestir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, í samtali við fréttastofu RÚV. Málsaðilum hefur verið tilkynnt um ákvörðunina.
Landsréttur rýnir í dóminn
Greint var frá því í fréttum fyrr í dag að Ísland hefði tapað Landsréttarmálinu fyrir Mannréttindadómstólnum en Ísland braut gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti. Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, hafi ekki verið skipuð í hann með lögmætum hætti. Sigríður tilnefndi dómarana sem skipaðir voru í Landsrétt og Alþingi samþykkti þá skipan.
Arnfríður var einn fjögurra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt sem dómsmálaráðherra lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjögurra sem sérstök dómnefnd mat hæfasta. Hæstiréttur Íslands komst svo að þeirri niðurstöðu í desember 2017 að dómsmálaráðherra hefði brotið stjórnsýslulög með því að sinna ekki rannsóknarskyldu sinni með nægjanlegum hætti þegar hún ákvað að skipta út þeim umsækjendum sem metnir höfðu verið hæfastir af dómnefndinni.
Skrifstofustjóri Landsréttar sagði í samtali við RÚV að engar frekari ákvarðanir hafi verið teknar innan Landsréttar en verið sé að rýna í dóm Mannréttindadómstólsins.
Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar-og eftirlitsnefndar sagði í samtali við Kjarnann í morgun að Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra verði að víkja. Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir hins vegar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu breyta engu um stöðu dómsmálaráðherra.