Íslenski fasteignamarkaðurinn einkennist nú af byggingu nýrra íbúða. Í janúar síðastliðnum komu inn á sölu 362 íbúðir yfir landið allt en ekki hafa fleiri nýbyggingar verið settar á sölu í einum mánuði síðan 2013. Enn fremur var 154 prósent aukning í skráningu nýrra íbúða til sölu í fyrra. Frá þessu er greint í nýrri mánaðarlegri skýrslu Íbúðarlánasjóðs.
Mesta fjölgun íbúða síðan 2008
Í skýrslu Íbúðarlánasjóðs segir að árið 2018 var mesta árlega fjölgun íbúða í tíu ár. Íbúðum á landinu öllu fjölgaði um 2.400 í fyrra og eru þær nú 140.600 talsins. Til samanburðar fjölgaði íbúðum um 1.800 árið 2017. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði íbúðum um 542. Utan höfuðborgarsvæðisins varð mesta fjölgunin í Reykjanesbæ þar sem 227 íbúðir bættust við.
Þá má nefna að í heildina voru 1.880 íbúðir settar á sölu í janúar á þessu ári en það er mesta framboð íbúða sem mælst hefur á einum mánuði á undanförnum sex árum. Af þeim voru 362 nýjar íbúðir settar á sölu en það er mesti fjöldi nýbygginga í einum mánuði síðan 2013.
83 prósent íbúða seldust undir ásettu verði
Í skýrslunni er greint frá því að ásett verð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hefur heilt yfir hækkað með svipuðum takti eða ögn meira en söluverð undanfarin fimm ár. Helsta undantekningin frá því var þó á fyrri hluta ársins 2017 þegar hækkun söluverðs íbúða tók á tímabili fram úr hækkun ásetts verðs. Á undanförnum mánuðum hefur hlutfall viðskipta undir ásettu verði aukist eftir tímabundna fjölgun íbúðakaupa yfir ásettu verði frá júlí til október í fyrra.
Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur ekki mælst lægra síðan í byrjun árs 2013. Aðeins 4 prósent íbúðaviðskipta á höfuðborgarsvæðinu í janúar síðastliðnum áttu sér stað yfir ásettu verði. Mikil meirihluti íbúða seldust undir ásettu verði eða 83 prósent íbúða.
Þegar horft er til kaupsamninga vegna fasteigna sem undirritaðir voru í janúar kemur í ljós að meirihluti þeirra fasteigna hafði verið innan við sex mánuði á sölu. Þetta á jafnt við höfuðborgarsvæðið og utan þess. Um 11 prósent fasteigna sem seldust í janúar á höfuðborgarsvæðinu höfðu verið innan við 30 daga á sölu og 5 prósent voru einn til þrjá mánuði á sölu. Sé horft til íbúðamarkaðar utan höfuðborgarsvæðisins sjást svipuð hlutföll.
16 prósent fjölgun í þinglýstum leigusamningum
Í janúar var alls 756 leigusamningum þinglýst hér á landi en það er 16 prósent fjölgun milli ára. Flestum leigusamningum utan höfuðborgarsvæðisins var þinglýst á Suðurnesjum í janúar. Þar voru þeir alls 78 talsins sem samsvarar 18 prósent fjölgun frá fyrra ári.