Þrátt fyrir að um 30 prósent af Boeing 737 Max 8 vélunum í heiminum hafi staðið ónotaðar á flugvöllum, eftir tvö flugslys með skömmu millibili þar sem vélar af fyrrnefndri tegund hröpuðu, þá var það ekki talið tilefni til að taka allar vélarnar úr umferð.
Engin gögn bendi á Boeing
Boeing hefur sagt í yfirlýsingu, bæði í gær og í dag, að enn sem komið er hafi ekki komið fram nein gögn sem bendi eindregið til þess að rétt sé að banna flug á öllum flugvélum af gerðinni 737 Max 8. Flugvélaframleiðandinn segist eiga í góðum samskiptum við viðskiptavini sína - sem eru flugfélög í öllum heimshornum - en ennþá séu ekki komnar fram neinar upplýsingar sem bendi til þess að Boeing þurfi að gefa nýja leiðsögn um vélarnar eða stýringu þeirra.
Seattle Times hefur fjallað ítarlega um Boeing, sem hefur verið með hjartað í framleiðslu sinni frá stofnun, árið 1916, á Seattle svæðinu, og slysin tvö.
Í umfjöllun miðilsins, sem Dominic Gates, sérhæfður blaðamaður miðilsins á sviði Boeing og flugmála, hefur komið fram að rannsóknin innan Boeing, á slysinu í Indónesíu í október, beinist að svonefndu MACS-kerfi (Maneuvering Characteristics Augmentation System) í vélunum og mögulegum galla í skynjurum, sem hafi mögulega orsakað slysið og stýrt vélinni í hafið - án þess að flugmenn hafi getað hindrað það - með þeim afleiðingum að allir um borð létust, 189 talsins.
Í yfirlýsingu eftir slysið hefur Boeing sagt berum orðum að félagið hafi uppfært fyrrnefnd kerfi í vélunum, með það að markmiði að bæta þau og möguleika flugmanna til að bregðast við aðstæðum, þar sem fyrrnefnt kerfi gæti annars gripið inn í. Afdráttarlaus niðurstaða um hvað olli fyrrnefndum slysum liggur þó ekki fyrir.
Þá vitnar Seattle Times til þess í dag, að forstjóri Boeing, Dennis Muilenburg, hafi í ávarpi til starfsfólks Boeing sagt að fyrirtækið væri nú að gera það sem það gæti, til að styðja við framleiðsluferla fyrirtækisins fyrir 737 Max vélarnar og að afla upplýsinga sem þyrfti til að komast til botns í því hvað hefði gerst.
Hann sagði enn fremur að atburðir eins og skelfileg flugslys hefðu mikil áhrif á allan fluggeirann í heild sinni. Atburðirnir væru áminning um að mikilvægi öryggismála og hversu mikilvæg störfin væru sem fólkið hjá Boeing væri að sinna. Fyrirtækið væri í leiðtogahlutverki sem ekki væri hægt að koma sér undan. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu hefur það sagt vera með öryggi farþega í forgangi og að það hafi fullt traust á 737 Max vélunum, þrátt fyrir allt.
Í umfjöllun Seattle Times segir að slysin tvö að undanförnu hafi sett framleiðsluferla hjá Boeing í uppnám - og fyrirtækið undir mikla pressu - og að fjárhagslegt högg fyrir fyrirtækið geti orðið verulegt, en enn sem komið er sé of snemmt að segja til um hver áhrifin verði.
Sérstaklega á Boeing mikið undir þegar kemur að viðskiptum við flugiðnað í Kína, en um þriðjungur allra 737 Max véla í framleiðslu er fyrir þann markað. Kínversk yfirvöld brugðust strax við slysinu í Eþíópíu með því að banna notkun á 737 Max 8 vélum, og taka þær alveg úr umferð, þar til frekari upplýsingar kæmu fram.
Hver hugsar um sig
Flugmálayfirvöld um allan heim hafa fylgst með rannsókninni og slysið í Eþíópíu, þar sem 157 létust þegar vél Ethopia Airlines hrapaði til jarðar sex mínútum eftir flugtak, hefur leitt til þess að bæði flugmálayfirvöld og flugfélög hafa gripið til þess að hætta notkun á vélunum í farþegaflugi. Aðgerðir eins og þessar eru risavaxnar og hafa mikil margfeldisáhrif enda skilvirk flugumferð eitt af gangverkum í daglegu lífi í samfélaginu. Áhrif á ferðaþjónustu geta orðið veruleg, enda skapa svona flugslys óöryggistilfinningu hjá viðskiptavinum flugfélaga.
En ákvarðanir um bann á fyrrnefndum flugvélum hafa þó ekki verið teknar, eftir flugslysin skelfilegu í Indónesíu, í október í fyrra, og í Eþíópíu á sunnudaginn. Frekar hefur verið gripið til tímabundinna aðgerða um að hætta notkun á vélunum. Nú síðast tók Icelandair ákvörðun um að hætta notkun á þremur Max 8 vélum, en fjölmörg flugfélög um allan heim hafa tekið ákvörðun slíkt hið sama á undanförnum tveimur dögum. Markaðsvirði Icelandair féll um 5 prósent í dag eftir 9,66 prósent fall í gær.
Verðhrun um allan heim
Markaðsvirði flugfélaga hefur hrunið um allan heim síðustu tvo daga. Það sama á við um markaðsvirði Boeing, sem fallið hefur um 6,6 prósent þegar þetta er ritað. Farið úr 222 milljörðum Bandaríkjadala eftir mikið fall í gær (rúmlega 5 prósent) í 210 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um rúmlega 25 þúsund milljörðum króna.
Starfsmenn Boeing eru tæplega 80 þúsund á Seattle svæðinu en eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær, þá er mikil framleiðslupressa á fyrirtækinu, meðal annars til að koma til móts við viðskiptavini um afhendingar á nýjum 737 Max vélum. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið skili af sér um 57 slíkum vélum á mánuði, í fullum afköstum.