„Það ríkir óvissa í íslensku réttarkerfi – og það að óþörfu. Landsréttur, ein dýrmætasta réttarbót síðari ára, hefur verið settur í uppnám. Það er því afar erfitt að fylgjast með dómsmálaráðherra fara fjallabaksleiðir til að tortryggja niðurstöðu Mannréttindadómsstólsins, sem við Íslendingar vel að merkja höfum aldrei áður áfrýjað,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
Meirihluti Mannréttindadómstóls Evrópu komst að þeirri niðurstöðu sem birt var í morgun að skipan Landsréttardómara bryti gegn 6. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem kveðið er á um rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra telur dóm Mannréttindadómstóls Evrópu ekki vera tilefni til þess að segja af sér en hinir ýmsu þingmenn hafa krafist afsagnar hennar. Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag sagðist hún áfram njóta trausts hjá ríkisstjórninni allri og hefur því ekki í hyggju að segja af sér. Hún sagði dóminn bæði vera óvæntan og fordæmalausan og þá komi líka á óvart að dómurinn hefði klofnað í afstöðu sinni til málsins.
Dómsmálaráðherra sagði jafnframt að verið væri að greina málið en benti á að dómurinn væri afar yfirgripsmikill. Hún sagði dóminn kunna að hafa áhrif um alla Evrópu. Auk þess sagði Sigríður að það væri mat bæði sérfræðinga í dómsmálaráðuneytinu og hjá ríkislögmanni að það væri tilefni til að skoða vandlega og alvarlega hvort ekki væri hægt að skjóta niðurstöðunni til yfirdómsins en slíkt þarf ríkið að gera innan þriggja mánaða.
Óásættanlegt og óafsakanlegt
Þorgerður Katrín segir á Facebook að nú virðist dómsmálaráðherra ætla sér að viðhalda óvissunni í marga mánuði eða jafnvel ár með því að halda málinu áfram. Það sé óásættanlegt og óafsakanlegt. Í stað þess að viðurkenna af auðmýkt grafalvarlega stöðu málsins og ætla sér að gera eitthvað í því og það strax.
„Við þurfum að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Í því felst að þingið verði þvert á flokka, að koma að málinu og vinna það hratt og vel. Til að vernda réttarríkið, láta dómskerfið virka og eyða þeirri óvissu sem nú er uppi um Landsrétt. Þar liggur okkar ábyrgð og er mikilvægasta verkefni okkar allra á Alþingi núna eftir niðurstöðu dómsins. Pólitískur einstrengingsháttur né skotgrafir eru það ekki. Það þarf að leysa úr málinu – og það strax,“ skrifar Þorgerður Katrín.
Það ríkir óvissa í íslensku réttarkerfi – og það að óþörfu. Landsréttur, ein dýrmætasta réttarbót síðari ára, hefur...
Posted by Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir on Tuesday, March 12, 2019