Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lagði línurnar um það að Sigríður Á. Andersen myndi hætta sem dómsmálaráðherra, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Hún kom sjónarmiðum sínum, um að dómsmálaráðherra yrði að axla ábyrgð á þeirri óvissu sem upp væri komin í dómskerfinu eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu, skýrt á framfæri við formenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, á fundi formannanna í morgun, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Eftir sem áður var ekki endanlega ljóst, að Sigríður Á. Andersen myndi segja af sér, fyrr en hún gerði það sjálf á blaðamannfundi í dómsmálaráðuneytinu, sem hófst klukkan 14:30.
Ríkisráðsfundur hefur nú verið boðaður á morgun klukkan 16:00 þar sem nýr dómsmálaráðherra mun verða skipaður. Bjarni Benediktsson hefur talað fyrir því að tvennt komi til greina, þegar kemur að því að skipa nýjan dómsmálaráðherra.
Annars vegar að einhver þeirra sem er nú þegar í ríkisstjórn muni taka við dómsmálaráðuneytinu, samhliða öðrum störfum, eða að nýr ráðherra komi úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins.
Hann kom þessum sjónarmiðum á framfæri í samtölum við blaðamenn, eftir þingflokksfundi á Alþingi, eftir blaðamannafund Sigríðar.
Á þeim tímapunkti - það er þegar blaðamannafundurinn fór fram - kom til greina að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu ef Sigríður myndi ekki segja af sér og axla ábyrgð á þeirri stöðu sem upp væri komin í starfi Landsréttar, eftir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Innan raða Vinstri grænna var það staðan sem uppi var: ríkisstjórnarsamstarfið var í húfi ef Sigríður myndi ekki segja af sér og hætta sem ráðherra.
Starf Landsréttar er í uppnámi eftir dóm Mannréttindadómstólsins og hefur dómsuppkvaðningum verið frestað ótímabundið, meðan næstu skref eru metin. Dómarar við réttinn tóku ákvörðun um þetta í gær.
Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson hafa bæði sagt að það sé sjálfsagt að vísa málinu til æðsta dómsstigs Mannréttindadómstólsins, og fá endanlega niðurstöðu í málið þar, vegna þess að mikið sé í húfi.
Katrín sagði eftir að Sigríður hafði sagt af sér, að það væri mikilvægt að eyða óvissu um dómskerfið í landinu, og að skapa þyrfti vinnufrið um það sem framundan væri í þeirri vinnu.
Samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadómstólsins braut Ísland gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti. Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, hafi ekki verið skipuð í hann með lögmætum hætti.
Íslensk stjórnvöld eru harðlega gagnrýnd í niðurstöðunni, en málið snýst um það hvernig 15 dómarar við réttinn voru skipaðir í hann.
Í niðurstöðunni segir meðal annars: „Ferlið varð til þess að valda skaða á því trausti sem dómstóll í lýðræðislegu samfélagi þarf að vekja hjá almenningi og braut í bága við það grundvallaratriði að dómstóll sé löglegur, eina af meginreglum réttarríkisins.“
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um málið frá því það kom upp, og birti meðal annars ítarlega fréttaskýringu um málið í gær, þar sem farið var yfir helstu álitamál og forsöguna.