Í bréfi Lárusar Blöndal, formanns Bankasýslu ríkisins, og Jóns Gunnars Gunnarssonar, forstjóra stofnunarinnar, til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að laun bankastjóra ríkisbankanna, Íslandsbanka og Landsbankans, verði lækkuð.
Eftir breytinguna verða mánaðarlaun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, áfram töluvert lægri en laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka.
Ríkið á Íslandsbanka 100 prósent og 98,2 prósent af hlutafé Landsbankans. Bankinn sjálfur á 1,6 prósent og aðrir hluthafar, aðallega fyrrverandi og núverandi starfsmenn bankans, 0,2 prósent.
Bréfið hefur verið birt á vef Bankasýslu ríkisins.
Í því er meðal annars vitnað til bréfa frá Friðriki Sophussyni, formanni stjórnar Íslandsbanka, og Helgu B. Eiríksdóttur, formanni bankaráðs Landsbankans.
Í bréfinu segir að „frá og með 1. apríl n.k. verða laun Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka 3.650.000 kr. á mánuði án hlunninda. Í þessu sambandi er vert að benda á að laun bankastjóra án hlunninda, sem eru nú 4.200.000 kr. á mánuði námu 3.850.000 kr. á mánuði þegar ríkissjóður eignaðist allt hlutafé í bankanum árið 2016.“
Í bréfi Helgu til Bankasýslunnar segir að bankaráðið hafi ákveðið að launahækkun Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans frá 1. apríl 2018 hafi verið tekin til baka, og þannig komið til móts við þau sjónarmið sem Bjarni Bendiktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefði komið á framfæri.
Á móti komi hins vegar vísitöluhækkun frá 1. júlí 2017 til 1. janúar 2019 sem nemi 7,81%. „Grunnlaun bankastjóra eftir lækkun verða 3.297 þúsund krónur og bifreiðahlunnindi 206 þúsund krónur. Heildarlaun bankastjóra verða því 3.503 þúsund krónur,“ segir í bréfinu.
Landsbankinn er stærstur íslenskra banka, og var rekinn með með mestri arðsemi á eigin fé í fyrra, eins og fjallað var um að vef Kjarnans 14. febrúar síðastliðinn.
Laun bankastjóra Landsbankans eru nú langsamlega lægst, eins og þau voru reyndar í fyrra einnig. Birna Einarsdóttir var með 5,3 milljónir á mánuði í fyrra og Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, var með 6,2 milljónir á mánuði.
Sé horft til eiginfjárstöðu bankanna er Landsbankinn töluvert mikið stærri en bæðí Íslandsbanki og Arion banki. Eigið fé Landsbankans var 239,6 milljarðar í lok árs í fyrra en hjá Íslandsbanka, hinum ríkisbankanum, var eigið féð 176,3 milljarðar króna, og munar þar 63,3 milljörðum króna.
Hjá Arion banka var eigið féð 200,9 milljarðar í lok árs.