Líftæknifyrirtækið Alvotech hefur nú hafið klínískar rannsóknir á sínu fyrsta líftæknilyfi. Um er að ræða líftæknilyfshliðstæðu lyfsins Humira sem er í dag söluhæsta lyf heims og selst fyrir um 20 milljarða Bandaríkjadala á ári, um 2.500 milljarðar króna. Um 400 þátttakendur munu taka þátt í rannsókninni sem á sér stað á 30 stöðum vítt og breytt um Evrópu.
Stór áfangi að hefja klínískar rannsóknir.
Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech, segir það stóran áfanga fyrir fyrirtækið að hefja klínískar rannsóknir. Lyfið hefur reynst árangursríkt við meðferð á ýmsum sjálfsofnæmissjúkdómum, eins og liðagigt og psoriasis. Á Íslandi nemur árleg sala lyfsins um 355 milljónum króna.
Alvotech mun framleiða og selja lyfið með samstarfsaðilum sínum á öllum lyfjamörkuðum heims. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að með tilkomu lyfsins skapist umtalsverður sparnaður fyrir heilbrigðisyfirvöld um allan heim. Jafnframt hafi rannsóknir sýnt að þegar líftæknihliðstæðulyf koma á markað þá eykst aðgengi sjúklinga að nýjum líftæknilyfjum. Alvotech gerir ráð fyrir að markaðssetning lyfsins hefjist fljótlega eftir að klínískum rannsóknum lýkur.
Alvotech verði leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu líftæknilyfja á næstu árum
Í dag starfa um 250 vísindamenn hjá Alvotech á Íslandi, í Sviss og í Þýskalandi. Gert er ráð fyrir að ríflega 100 vísindamenn verði ráðnir á Íslandi til starfa í hátæknisetri fyrirtækisins á næstu 12 mánuðum. Greint er frá því í tilkynningunni að Alvotech hafi nú þegar fengið framleiðsluleyfi fyrir lyf sín. Auk þess hafi fyrirtækið tryggt sér nýlega beint aðgengi að tveimur af stærstu lyfjamörkuðum heims, Kína og Japan, með mikilvægum samstarfssamningum. Í Kína er hafin uppbygging á nýrri lyfjaverksmiðju, sem verður að helmingshluta í eigu Alvotech. Í Japan hefur verið undirritaður mikilvægur samstarfssamningur um sölu og dreifingu lyfja fyrirtækisins við Fuji Pharma, sem jafnframt eru orðnir hluthafar í Alvotech.
Róbert segir í tilkynningunni að fjölmargir áfangar hafi náðst frá því að Alvotech hóf undirbúning á þróun og framleiðslu líftæknilyfja fyrir átta árum. „ Markmið okkar er að hátæknisetur fyrirtækisins verði leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu líftæknilyfja og að aðgengi sjúklinga að hágæða lyfjum aukist enn frekar. Okkur miðar vel áfram og þróunarstarf Alvotech er gengur samkvæmt væntingum og fyrirtækið er vel fjármagnað til frekari vaxtar á næstum árum.“