Landsréttur mun taka aftur til starfa á mánudag samkvæmt breyttri dagskrá sem birt verður á heimasíðu réttarins. Alls munu ellefu dómarar sinna dómstörfum en fjórir þeirra sem skipaðir voru í réttinn munu ekki taka þátt í dómstörfum „að svo stöddu.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá forseta Landsréttar, Hervöru Þorvaldsdóttur, sem send var út í dag.
Landsréttur tilkynnti á þriðjudag að rétturinn myndi ekki fella neina dóma út þessa viku. Fyrr sama dag hafði verið tilkynnt að fjórir dómarar af 15 sem höfðu verið skipaðir í réttinn með ólögmætum hætti: Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson myndu ekki koma að neinum málum út vikuna.
Ástæðan var dómur Mannréttindadómstóls Evrópu sem fallið hafði þá um morguninn í Landsréttarmálinu svokallaða. Í dómnum fengu bæði Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017.
Niðurstaðan var skýr. Í dómnum var fallist á það dómararnir fjórir sem bætt var á listann væru ólöglega skipaðir og gætu þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, þar sem ólöglega skipaðir dómarar gætu ekki tryggt réttláta málsmeðferð. Ferlið sem beitt var við skipun dómaranna við Landsrétt hafi orðið „til þess að valda skaða á því trausti sem dómstóll í lýðræðislegu samfélagi þarf að vekja hjá almenningi og braut í bága við það grundvallaratriði að dómstóll sé löglegur, eina af meginreglum réttarríkisins.“