Mynd: Bára Huld Beck

Pólitískur ómöguleiki að Sigríður hefði getað setið áfram

Það var bæði pólitískt og praktískt ómögulegt að Sigríður Á. Andersen sæti áfram sem dómsmálaráðherra. Vinstri græn hefðu ekki getað sætt sig við það pólitískt og ómögulegt hefði verið fyrir Sigríði að leiða flókna vinnu dómsmálaráðuneytisins vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í ljósi þess að sá dómur er áfelli yfir henni.

Ég mun ekki gera það. Ég hef ekki ástæðu til þess.“ Þetta sagði Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í hádegisfréttum RÚV á þriðjudag þegar hún var spurð hvort hún myndi segja af sér vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í Landsréttarmálinu.

Rúmum sólarhring síðar, klukkan 13:49 síðdegis á miðvikudag, var boðað til blaðamannafundar í dómsmálaráðuneyti sem skyldi hefjast 41 mínútu síðar. Á þeim fundi lýsti Sigríður afstöðu sinni til Landsréttarmálsins í löngu máli, sagði að niðurstaðan hefði komið henni „verulega á óvart“ og að hún ætlaði að stíga til hliðar sem ráðherra á meðan að verið væri að fjalla meira um Landsréttarmálið og vinna úr þeirri stöðu sem upp var komin. Hún hefði skynjað að hennar persóna kynni að hafa truflandi áhrif á frekari meðferð málsins.

Það er hins vegar ekki hægt að stíga til hliðar tímabundið sem ráðherra. Stjórnskipun landsins gerir einfaldlega ekki ráð fyrir því. Sigríður var að segja af sér embætti og nýr ráðherra myndi taka við dómsmálaráðuneytinu á ríkisráðsfundi sem boðaður var á Bessastöðum klukkan 16 á fimmtudag.

Viðvörunarbjöllur hringdu hátt og skýrt

Dómur Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu kom flestum viðmælendum Kjarnans úr íslenskum stjórnmálum á óvart. Ekki endilega hver niðurstaðan var heldur hversu harðorður hann var í garð íslenskrar stjórnsýslu. Bæði Sigríður og Alþingi fengu á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017. Sigríður fyrir að hafa brotið stjórnsýslulög með því að breyta listanum um tilnefnda dómara frá þeim lista sem hæfisnefnd hafði skilað af sér, og fært fjóra dómara af þeim lista en sett aðra fjóra inn á hann án þess að rannsaka og rökstyðja þá ákvörðun með nægjanlegum hætti. Alþingi fyrir að hafa kosið um skipan dómaranna allra í einu, í stað þess að kjósa um hvern fyrir sig.

Niðurstaðan var skýr. Í dómnum var fall­ist á það dóm­ar­arnir fjórir sem bætt var á listann væru ólög­lega skip­aðir og gætu þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, þar sem ólög­lega skip­aðir dóm­arar gætu ekki tryggt rétt­láta máls­með­ferð. Ferlið sem beitt var við skipun dóm­ar­anna við Lands­rétt hafi orðið „til þess að valda skaða á því trausti sem dóm­stóll í lýð­ræð­is­legu sam­fé­lagi þarf að vekja hjá almenn­ingi og braut í bága við það grund­vall­ar­at­riði að dóm­stóll sé lög­leg­ur, eina af meg­in­reglum rétt­ar­rík­is­ins.“

Viðvörunarbjöllurnar höfðu reyndar ómað hátt áður en kosningin var framkvæmd. Í umsögn sem hæstaréttarlögmaðurinn Jóhannes Karl Sveins­son sendi inn til stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefndar 30. maí 2017 sagð­ist hann hafa verið í áfalli þegar hann las rök­­stuðn­­ing dóms­­mála­ráð­herra. Þar varaði hann við því að tillaga dómsmálaráðherra yrði dýr fyrir ríkið vegna mögulegs bótaréttar nokkurra umsækjenda en „ennþá fremur vegna þess að í uppsiglingu er hneyksli sem á eftir að valda langvarandi vandamálum í réttarkerfinu sjálfu“.

Alþingi væri skylt að taka málið til gaum­­gæfi­­legrar skoð­unar og mætti „ekki taka að sér hlut­verk stimp­ilpúða fyrir fram­­kvæmda­­valdið í þetta sinn. Það er allt of mikið í húfi!“

Að Alþingi eigi ekki að stjórnar af aflsmunum

En málið var samt sem áður lagt fram. Þáverandi minnihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði til að málinu yrði vísað frá. Þeirri tillögu var hafnað með 31 atkvæði gegn 30. Tveir þingmenn kusu ekki vegna tengsla við umsækjendur um dómaraembætti við Landsrétt.

Í kjölfarið var kosið um tillögu Sigríðar um hverja ætti að skipa sem dómara. Þegar forsvarsmaður minnihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerði grein fyrir atkvæði sínu sagði hún: „Minni hlutinn á Alþingi lagði fram málefnaleg rök fyrir því að málatilbúnaður hefði þurft að vera vandaðri og málsmeðferð þingsins hefði þurft lengri tíma. Þessi rök voru studd af þeim sérfræðingum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kallaði sér til aðstoðar til að meta þennan málatilbúnað. En á rök minni hlutans og sérfræðinganna kaus meiri hlutinn að hlusta ekki. Ég tel, frú forseti, að Alþingi eigi að stjórnast af vitsmunum en ekki aflsmunum. Það er ekki mín tilfinning að Alþingi hafi stjórnast af vitsmunum hér í dag. Þess vegna segi ég nei við þessari tillögu.“

En tillagan var samt sem áður samþykkt með greiddum atkvæðum þingmanna Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, sem þá mynduðu ríkisstjórn. Rök þingmanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar fyrir því að samþykkja skipanina voru margháttuð. Björt Ólafsdóttir, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði: „Gamla Ísland og nýja Ísland. Faglegt mat hæfnisnefndar um tíu karla og fimm konur. Sannarlega í takt við gamla Ísland. Dómsmálaráðherra leggur til sjö konur, átta karla og ég fagna því og ég furða mig á því að aðrir geri það ekki hér, stjórnarandstaðan gerir það ekki hér. Rétt kynjahlutföll í Landsrétti kostar okkur ekki traust. Það ávinnur okkur traust.“ Óttarr Proppé, þáverandi formaður Bjartrar framtíðar, sagðist ánægður með rökstuðning Sigríðar.

Pawel Bartoszek, þá þingmaður Viðreisnar, sagði að hann teldi að „þetta vald og þessi ábyrgð liggi hjá ráðherra og sé eðlilegt að henni sé komið fyrir þar. Ég tel ekki eðlilegt að þingið eigi að hafa afskipti af þessari ákvörðun ráðherra. Ég mun því greiða atkvæði í samræmi við það.“ Þorsteinn Víglundsson, samflokksmaður hans og þá félags- og jafnréttismálaráðherra, tók undir með Pawel og sagði: „Ég vona að þetta verði í síðasta skiptið sem þingið hlutast til um það með þessum hætti. Ég tel dómsmálaráðherra bera hina endanlegu ábyrgð í málinu og tel að sú tillaga sem liggur fyrir þinginu sé vel ígrunduð og rökstudd.“ Jóna Sólveig Elínardóttir, þáverandi varaformaður Viðreisnar, sagði að breytingarnar sem Sigríður hafði gert á listanum hafi orðið „til þess að listinn mætir hvoru tveggja, skilyrðum um jafnræði kynjanna og sjónarmiðum um dómarareynslu auk þess sem allir dómararnir hafa verið metnir hæfir. Þetta eru góð vinnubrögð. Sá rökstuðningur sem hæstvirtur ráðherra hefur lagt fram er góður og ég fellst á hann. Samkvæmt minni bestu sannfæringu og samvisku.“

Samþykktu að verja Sigríði gegn vantrausti

Þegar ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum í lok nóvember 2017, með Sigríði Á. Andersen áfram í stól dómsmálaráðherra,  var lá fyrir niðurstaða héraðsdóms um að Sigríður hefði brotið lög með skipan dómara og niðurstaða Hæstaréttar í málinu var væntanleg. Sú staða var rædd sérstaklega við stjórnarmyndunina. Ljóst var að það yrði erfiðast fyrir Vinstri græn að verja veru Sigríðar í ríkisstjórn, sérstaklega vegna þess að forsætisráðherrann Katrín og Svandís Svavarsdóttir, einn áhrifamesti þingmaður flokksins og nýr heilbrigðisráðherra, höfðu skrifað grein nokkrum dögum eftir að skipun dómara í Landsrétt var samþykkt á Alþingi þar sem þær gagnrýndu málsmeðferðina harðlega. Í greininni sagði: „Upp­­­­­­­nám milli­­­­­­­dóm­­­­stigs­ins er nú algjört, á ábyrgð dóms­­­­mála­ráð­herr­ans og rík­­­­is­­­­stjórn­­­­­­­ar­innar all­r­­­­ar. Enn er ekki séð fyrir endann á mála­­­­lyktum þessa og gæti svo farið að Lands­­­­réttur yrði að glíma við van­­­­traust og skort á trú­verð­ug­­­­leika um ára­bil.“

Þegar Hæstiréttur birti sína niðurstöðu í Landsréttarmálinu, þann 19. desember 2017, um að Sigríður hefði brotið gegn ákvæði stjórnsýslulaga með ákvörðun sinni þá varði Katrín setu hennar í ríkisstjórn.

Katrín Jakobsdóttir fundaði með formönnum hinna stjórnarflokkanna skömmu eftir að hún lenti á Íslandi í gærmorgun.
Mynd: Bára Huld Beck

Þegar stjórnarandstaðan setti fram vantrausttillögu á Sigríði í mars 2018 þá kusu allir þingmenn Vinstri grænna utan tveggja, Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Andrésar Inga Jónssonar, á móti henni og vörðu þar með dómsmálaráðherra gegn vantrausti. Kol­beinn Ótt­ars­son Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði til að mynda í ræðu sinni að hann hafi verið mót­fall­inn þeim ákvörð­unum og emb­ætt­is­verkum Sig­ríðar sem van­traust­s­til­lagan snerist um, en að hann styddi rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dótt­ur. Þess vegna segði hann nei.

Lilja Raf­ney Magn­ús­dóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í ræðu sinni að van­traust­s­til­lagan snerist ekki um dóms­mála­ráð­herra heldur rík­is­stjórn­ina í heild. „Það er alveg ljóst að skað­inn er skeð­ur. Þegar er búið að vinna þau emb­ætt­is­verk sem eru ástæða þess­arar umræðu. Það var gert í síð­ustu rík­is­stjórn lands­ins, fyrir síð­ustu kosn­ing­ar. Ef van­traust­s­til­lagan verður sam­þykkt getur tvennt ger­st; ann­að­hvort að ráð­herr­ann fari og nýr dóms­mála­ráð­herra taki við[...]Hitt sem gæti gerst væri að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn yfir­gæfi rík­is­stjórn­ina og þar með væri hún úr sög­unni. Vil ég aðra rík­is­stjórn án Alþing­is­kosn­inga, aðra en rík­is­stjórn Katrínar Jak­obs­dótt­ur? Mitt svar er nei.“

Mörg erfið mál á skömmum tíma

Fátt hefur gengið jafn mikið á pólitíska inneign Katrínar Jakobsdóttur og Vinstri grænna hjá þeirra eigin stuðningsmönnum og sú ákvörðun að verja Sigríði fyrir vantrausti. En flokkurinn vissi að hann þyrfti að gera það til að halda ríkisstjórninni saman og lét sig því hafa það.

Síðustu vikur hefur svo reynt umtalsvert á styrk saumanna í ríkisstjórnarsamstarfinu. Harðar kjaradeilur eru að reynast stjórninni erfiðar, sérstaklega vegna þess að gagnrýni verkalýðshreyfinganna á þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur komið með að borðinu í þeim deilum hefur verið hörð. Ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um að stuðning Íslands við leið­­toga stjórn­­­ar­and­­stöð­unnar í Venes­ú­ela fóru illa í ýmsa innan Vinstri grænna og ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að heimila áframhaldandi hvalveiðar ekki síður. Þá hefur ríkt óopinbert stríð um samgöngumál, og sérstaklega veggjöld, innan ríkisstjórnarinnar frá því í desember þar sem takast á Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra málaflokksins, og Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar sem oft er kallaður skuggasamgönguráðherra í tali milli þingmanna.

Ofan á allt er efnahagskerfið að kólna, enn ríkir töluverð óvissa um framtíð flugfélaga landsins og engin loðna verður veidd á þessu fiskveiðiári, vegna þess að hún finnst ekki í íslenskri lögsögu. Og traust á stjórnmál hríðféll á milli ára. Það hefur stuðningur almennings við ríkisstjórnina líka gert frá því að hún tók við.

Ríkisstjórnin mátti illa við því að fá nýja sprengju í fangið síðastliðinn þriðjudag. En hún fékk slíka frá Mannréttindadómstól Evrópu.

Pólitískur ómöguleiki

Þótt Sigríður Á. Andersen hefði verið borubrött í viðtali við fjölmiðla á þriðjudag og sagt að hún væri ekki að víkja var ljóst að innan raða Vinstri grænna væri sú skoðun ráðandi að áframhaldandi seta hennar væri ekki pólitískt gerleg. Stjórnarandstaðan var þegar búin að boða aðra vantrauststillögu og Vinstri græn gætu ekki varið Sigríði aftur gegn slíkri.

Katrín Jakobsdóttir ræddi stöðuna við Sigríði á þriðjudag, en forsætisráðherrann var þá stödd í New York. Katrín lenti svo á Keflavíkurflugvelli í gærmorgun og fór á fund með formönnum hinna stjórnarflokkanna, Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni, klukkan hálf níu þar sem staðan var rædd. Þar kom Katrín sjónarmiðum sínum um að dómsmálaráðherra yrði að axla ábyrgð á stöðunni á framfæri við hina formennina.

Viðmælendum Kjarnans innan Vinstri grænna ber ekki að öllu leyti saman um hversu tæpt ríkisstjórnarsamstarfið hafi staðið og hvort því hefði verið slitið ef Sigríður hefði ekki sagt af sér. En ljóst er að það er upplifun sumra lykilmanna innan þeirra raða að ef Sigríður hefði ekki sagt af sér þá hefði samstarfinu verið slitið.

Þegar þingflokksfundur Vinstri grænna hófst klukkan um klukkan eitt síðdegis í gær þá lá ekki enn fyrir hvað Sigríður myndi gera, né hvað forsætisráðherra myndi segja við fjölmiðla þegar hún myndi tjá sig efnislega um málið í fyrsta sinn þegar fundinum lyki.

Ríkisstjórnin hefur glímt við mörg erfið viðfangsefni undanfarið.
Mynd: Bára Huld Beck

Áður en fundinum lauk barst hins vegar tilkynning um blaðamannafund dómsmálaráðherra til fjölmiðla og öllum varð ljóst hvað væri í uppsiglingu. Katrín gat því farið út af þingflokksfundinum í gær og sagt við fjölmiðla að hún styddi einfaldlega ákvörðun Sigríðar um að stíga til hliðar.

Gat ekki leitt viðgerð á eigin mistökum

Praktískt séð var einnig ómögulegt fyrir Sigríði að sitja áfram. Niðurstaða Mannréttindadómstólsins leiddi af sér að  starfsemi Landsréttar er í fullkomnu uppnámi. Nær samstundis var öllum málum sem dómararnir fjórir sem voru skipaðir með ólögmætum hætti; Arn­­­­­fríður Ein­­­­­ar­s­dótt­ir, Ragn­heiður Braga­dótt­ir, Ásmundur Helga­­­­­son og Jón Finn­­­­­björns­­­­­son, áttu að koma að í þessari viku frestað og síðar sama dag var tilkynnt að Landsréttur myndi ekki fella neina dóma út vikuna.

Algjör óvissa er uppi í íslensku réttarkerfi og lögmenn sem Kjarninn hefur rætt við segja borðleggjandi að mögulegt sé að taka upp öll mál sem dómararnir fjórir hafa komið að. Þá sé einnig vandséð, og í raun ómögulegt, að þeir geti setið áfram í réttinum. Það þurfi að skipa nýja dómara í þeirra stað.

Ferlið allt mun að öllum líkindum einnig verða íslenska ríkinu dýrt í peningum talið. Þeir fjórir sem teknir voru af listanum hafa fengið eða munu fá miska- og/eða skaðabætur, dómararnir fjórir sem skipaðir voru án þess að hafa verið taldir á meðal 15 hæfustu eiga líkast til háa skaðabótakröfu á ríkið verði þeir að víkja og kostnaður  við endurupptöku mála sem þeir hafa komið að mun verða umtalsverður.

Flókið verkefni er framundan fyrir dómsmálaráðuneytið við að finna út úr þeirri réttaróvissu sem er til staðar og við blasti að Sigríður gat ekki leitt þá vinnu í ljósi þess að það voru hennar ákvarðanir sem skópu ástandið. Á þessu virðist hún hafa áttað sig sjálf. Í yfirlýsingu hennar í gær sagði Sigríður að hún hefði skynjað það að hennar per­sóna kynni að hafa trufl­andi áhrif á frek­ari með­ferð máls­ins.

En hvar stendur málið nú? Stjórnvöld virðast ekki hafa verið með neina viðbragsáætlun til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi vegna dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Forsætisráðherra sagði við fjölmiðla í gær að stærsta forgangsmál stjórnvalda nú væri að tryggja réttaröryggi. Til þess hefur hún kallað til sérfræðinga til að rýna í dóminn og nú bíður stjórnvalda það verkefni að skýra stöðu Landsréttar.

Það verður hlutverk forsætisráðherra, verkstjórans í ríkisstjórninni, og nýs ráðherra dómsmála, sem skipaður var tímabundið á fimmtudag, að leiða það verkefni.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar