Bára Huld Beck Sigríður Á. Andersen

„Þetta er í öllu falli liðin tíð og ég dvel ekki frekar við hana“

Fyrrverandi dómsmálaráðherra segist ekki trúa öðru en að blaðamennskan telji landsréttarmálið orðið „old news“ eða gamlar fréttir – en málið hefur vissulega dregist og mikið hefur verið ritað um það. Kjarninn rifjaði upp aðdraganda þess að málið fór fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og pólitískar afleiðingar hér á landi.

Svokallað landsréttarmál heldur áfram að draga dilk á eftir sér, núna þremur og hálfu ári eftir að umfjöllun hófst um skipan dómara við nýtt millidómstig. Kjarninn óskaði eftir samtali við Sigríði Á. Andersen um málið og þá sérstaklega um aðdraganda afsagnar hennar í mars í fyrra. 

Í svari Sigríðar til Kjarnans segir hún að nú hafi hún rætt þetta mál í þaula og skrifað um það fjölda greina sem hægt sé að nálgast á sigridur.is

„Trúi ekki öðru en að blaðamennskan telji þetta mál orðið „old news“. Þetta er í öllu falli liðin tíð og ég dvel ekki frekar við hana,“ segir hún í skriflegur svari til Kjarnans.  

Auglýsing

Samstarfsfólk hennar í ríkisstjórn látið málið hlaupa með sig í gönur

Sigríður ræddi aftur á móti aðdraganda afsagnar sinnar í Víglínunni um síðastliðna helgi. 

„Ég get sagt það heiðarlega að þeir fundir sem ég átti með tilteknu fólki, þeir komu mér á óvart að því leyti að mér fundust bara allir sem ég talaði við vera bara hálf hauslausir. Hafa misst einhvern veginn fótinn og koðnað einhvern veginn niður og menn voru einhvern veginn algjörlega óundirbúnir fyrir þetta,“ sagði Sigríður. 

Það væri furðulegt.

Hún sagði jafnframt að samstarfsfólk hennar í ríkisstjórn sem hún ræddi við hefði látið málið hlaupa með sig í gönur. „Einstakir menn ætluðu sér síðan að láta þetta snúast um mína persónu og því ætlaði ég nú ekki að sitja undir, svo sannarlega ekki.“

Stofnun millidómstigs

Byrjum á byrjuninni. Lengi hafði verið rætt um nauðsyn þess að setja á fót millidómstig á Íslandi og að dómskerfið yrði þar með á þremur stigum í stað tveggja. Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að árið 1972 hafi þáverandi dómsmálaráðherra skipað sérstaka réttarfarsnefnd og á grundvelli tillagna hennar hafi verið lagt fram á árunum 1975 til 1976 frumvarp um millidómstig sem síðan hefur gengið undir nafninu Lögréttufrumvarpið. Meginmarkmið frumvarpsins voru hraðari meðferð dómsmála og aukinn aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdarvalds. Þetta frumvarp var lagt fram á Alþingi með ýmsum breytingum alls fimm sinnum á árunum þar á eftir en náði ekki fram að ganga. Hugmyndin um millidómstig lá eftir það í dvala og var ekki hluti af þeim breytingum á dómstólaskipan og réttarfarsumbótum sem innleiddar voru hér á landi á árinu 1992

Í desember árið 2006 ritaði dómstólaráð bréf til dómsmálaráðherra í tilefni þess að til meðferðar var frumvarp til nýrra laga um meðferð sakamála. Þar var lagt til að komið yrði á fót millidómstigi í sakamálum til að koma til móts við sjónarmið um réttláta málsmeðferð þannig að fullnægt yrði kröfum mannréttindasáttmála Evrópu um áfrýjun dóma í sakamálum. Síðar skipaði dómsmálaráðherra nefnd til að fjalla um hvernig best mætti tryggja milliliðalausa sönnunarfærslu í meðferð sakamála og skilaði hún skýrslu um málið 1. október 2008. 

Taldi nefndin margt benda til þess að gildandi fyrirkomulag um sönnunarfærslu fyrir Hæstarétti Íslands bryti gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu og gengi í berhögg við mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki hefði tíðkast í framkvæmd að rétturinn endurmæti niðurstöðu héraðsdóms um sönnunargildi framburðar með því að taka skýrslur af ákærða eða vitnum þar fyrir dómi. Þess í stað hefði rétturinn oftast gripið til þess ráðs að ómerkja dóm og vísa málum aftur heim í hérað. Beiting úrræðisins ylli oft töfum á meðferð máls, auk þess sem ekki væri unnt að beita því nema einu sinni í hverju máli. Lagði nefndin til að stofnaður yrði dómstóll á millidómstigi.

Frumvörp um stofnun millidómstigs samþykkt 2016

Þann 8. október 2010 héldu Ákærendafélag Íslands, Dómarafélag Íslands, Lögfræðingafélag Íslands og Lögmannafélag Íslands málþing um stofnun millidómstigs hér á landi. Þar kom fram mikill einhugur um stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Þessi félög sendu í kjölfarið erindi til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins þar sem skorað var á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir stofnun millidómstigs í einkamálum og sakamálum. Ráðuneytið ákvað þann 13. desember 2010 að skipa vinnuhóp til að fylgja þessu erindi eftir. Fékk vinnuhópurinn þau fyrirmæli „að taka til skoðunar þörfina á að setja á fót hér á landi millidómstig sem taki bæði til sakamála og einkamála, kosti þess og galla og hvernig slíku millidómstigi væri best fyrir komið auk þess að leggja mat á þann kostnað sem slíku væri samfara.“ Þá skyldi hópurinn hafa samráð við fulltrúa framangreindra félaga við vinnu sína. Vinnuhópurinn skilaði innanríkisráðuneytinu skýrslu í júní 2011 þar sem fjallað var ítarlega um stofnun millidómstigs og kostir og gallar hinna ýmsu leiða raktir.

Árið 2013 skipaði innanríkisráðherra nefnd til að vinna frumvarp til að setja á fót millidómstig. Skilaði nefndin frumvarpi sínu í mars 2015. Í framhaldi af því var að tilstuðlan þáverandi innanríkisráðherra, Ólafar Nordal, unnið að frekari útfærslu frumvarpsins auk þess sem tilhögun stjórnsýslu dómstóla var tekin til nánari athugunar. Í kjölfarið, eða í mars 2016, lagði innanríkisráðherra fram tvö lagafrumvörp á Alþingi um stofnun millidómstigs hér á landi, annars vegar frumvarp til nýrra laga um dómstóla og hins vegar frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála og lögum um meðferð sakamála. Bæði frumvörpin voru samþykkt á Alþingi þann 26. maí 2016. 

Sigríður Á. Andersen varð dómsmálaráðherra í janúar 2017.
Bára Huld Beck

Listi dómsmálaráðherra ólíkur þeim lista sem dómnefnd lagði fram

Sig­ríður Á. And­er­sen þingmaður Sjálfstæðisflokksins tók við sem dómsmálaráðherra í kjölfar þess að rík­is­stjórn Bjarna Bene­dikts­sonar var kynnt til leiks í jan­úar 2017.

Hún birti þann 30. maí 2017 til­lögu sína yfir þá 15 umsækj­endur sem hún vildi skipa í Lands­rétt – þetta nýja millidómsstig sem átti að taka til starfa í byrjun janúar árið eftir. Þá myndu öll sakamál sem áfrýjað hefði verið til Hæstaréttar fyrir þann tíma færast til Landsréttar sem myndi ljúka meðferð þeirra.

Listi Sig­ríðar var aftur á móti frá­brugð­inn þeim lista sem dóm­nefnd um hæfi umsækj­enda hafði lagt fram tæpum tveimur vikum áður. Fjórir af þeim 15 sem dóm­nefndin hafði mælt með voru ekki lengur til­nefndir og fjórir aðrir komnir í þeirra stað. Kynja­hlut­föll höfðu verið löguð umtals­vert. Í stað tíu karla og fimm kvenna vildi ráð­herr­ann skipa átta karla og sjö kon­ur. Kynja­sjón­ar­mið réðu þó ekki för við breyt­ing­una að sögn ráð­herra. Þau eru ekki hluti af rök­stuðn­ingi hennar fyrir breyttri röð­un, heldur ein­ungis dóm­ara­reynsla, sem Sig­ríður taldi að gera ætti hærra undir höfði við val á dóm­ur­um.

Málið tók hins vegar aðra stefnu þegar Kjarn­inn birti lista dóm­nefndar um hæfi 33 umsækj­enda um emb­ætti dóm­ara í Lands­rétt í sömu viku í lok maí. Þar var umsækj­endum raðað í röð eftir hæfi, að mati dóm­nefnd­ar. Í ljós kom að þeir sem dóm­nefnd hafði sett í sjö­unda, ell­efta, tólfta og fjórt­ánda sæti yfir hæf­ustu umsækj­endur voru ekki á lista dóms­mála­ráð­herra. Í þeirra stað voru komnir umsækj­endur sem dóm­nefnd hafði sett í sæti 17, 18, 23 og 30.

Í skýrslu dómnefndar um hæfi umsækjenda komu fram upplýsingar þar sem reynsla af dómsstörfum umsækjenda var borin saman. Þar var Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, settur í 18. sæti. Fyrir neðan hann, og þar af leiðandi með minni dómarareynslu, voru nokkrir umsækjendur sem dómsmálaráðherra vildi skipa í Landsrétt. Þeirra á meðal voru Oddný Mjöll Arnardóttir, Jóhannes Sigurðsson og Kristbjörg Stephensen, sem hafði enga dómarareynslu. Öll þrjú lentu einnig neðar í heildarmati dómnefndar á umsækjendum. Þar var Eiríkur í sjöunda sæti, Kristbjörg í því áttunda, Jóhannes í því níunda og Oddný Mjöll í þrettánda sæti. Samt ákvað ráðherra að skipa þau öll þrjú eftir að dómsmálaráðherra ákvað að gefa dómarareynslu aukið vægi við skipan dómara, og víkja þar með frá niðurstöðu dómnefndar.

Ákvað að skipa ekki 4 af þeim 15 sem dómnefnd hafði talið hæfasta

Með ákvörðun sinni ákvað Sigríður að skipa ekki fjóra af þeim 15 sem dómnefnd hafði talið hæfasta til að sitja í Landsrétti. Einn þeirra var Eiríkur, sem lenti líkt og áður segir, í sjöunda sæti á lista dómnefndar yfir þá sem hún taldi hæfasta til að sitja í réttinum. Jón Höskuldsson, sem hefur áralanga reynslu sem dómari, lenti í 11. sæti á lista dómnefndar, en hlaut heldur ekki náð fyrir augum Sigríðar. Það gerðu heldur ekki Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem var í 12. sæti, eða Ástráður Haraldsson, sem var í 14. sæti.

Þess í stað bætti Sigríður fjórum inn á listann. Þar ber fyrst að nefna Ásmund Helgason, sem var númer 17 á lista dómnefndar um hæfi umsækjenda og í 13. sæti þegar samanburður var gerður á umsækjendum á grundvelli reynslu af dómsstörfum. Arnfríður Einarsdóttir var í 18. sæti á lista dómnefndar um hæfi umsækjenda en Sigríður gerði samt sem áður tillögu um hana í eitt af embættunum 15. Arnfríður er eiginkona Brynjars Níelssonar, samflokksmanns Sigríðar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á þeim tíma.

Ragnheiður Bragadóttir var líka valin af Sigríði þrátt fyrir að hafa lent í 23. sæti á hæfislista dómnefndar. Bæði Ragnheiður og Arnfríður voru reynslumiklir dómarar.

Sá síðasti sem hlaut ekki náð fyrir augum dómnefndar en Sigríður ákvað að gera tillögu um í Landsrétt var Jón Finnbjörnsson. Hann lenti í 30. sæti af 33 á hæfislista dómnefndar. Hann hafði enga reynslu af lögmannsstörfum né stjórnsýslustörfum en hafði gegnt dómarastörfum um árabil.

Alþingi samþykkti tillöguna

Alþingi samþykkti síðan tillögu dómsmálaráðherra um 15 dómara við Landsrétt þann 1. júní 2017. Stjórnarþingmenn úr Sjálfstæðisflokknum, Viðreisn og Bjartri framtíð greiddu atkvæði með tillögunni og stjórnarandstaðan, að Framsóknarflokknum undanskildum, greiddi atkvæði á móti. Þingmenn Framsóknarflokksins sátu hjá við atkvæðagreiðsluna​. Tillagan var samþykkt með 31 atkvæði gegn 22. Átta greiddu ekki atkvæði. 

Landsréttur tók til starfa 1. janúar 2018.
Bára Huld Beck

Ást­ráður Haraldsson stefndi íslenska rík­inu vegna skip­un­ar­inn­ar og það gerði Jóhannes Rúnar Jóhannsson einnig. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu 15. september 2017, sama dag og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk, að dómsmálaráðherra hefði brotið lög við skipun Land­rétt­ar­dóm­ara. Dóm­ur­inn komst að þeirri nið­ur­stöðu að Sigríður hefði átt að óska eftir nýju áliti dóm­nefndar um hæfi umsækj­enda um dóm­ara­stöðu, ef hún teldi ann­marka á áliti dóm­nefnd­ar­inn­ar. Í nið­ur­stöðukafla dóms­ins var tekið fram að stjórn­sýslu­með­ferð ráð­herra hefði „ekki verið í sam­ræmi við ákvæði laga nr. 50/2016 sem og skráðar og óskráðar reglur stjórn­sýslu­rétt­ar­ins um rann­sókn máls, mat á hæfni umsækj­enda og inn­byrðis sam­an­burð þeirra“.

Ríkið var sýknað af bóta­kröfum Ást­ráðs og Jóhannesar Rúnars. Þeim þætti málsins var áfrýjað til Hæsta­réttar. 

Dómsmálaráðherra braut stjórnsýslulög

Í desember sama ár komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún vék frá hæfnismati dómnefndar um skipun 15 dómara í Landsrétt.

Í dómi hans sagði að Sigríður hefði að lágmarki átt að gera samanburð á hæfni annars vegar fjögurra umsækjenda sem dómnefndin hafði metið á meðal 15 hæfustu en Sigríður ákvað að gera ekki tillögu um að yrðu skipaðir, og þeirra fjögurra sem hún ákvað frekar að skipa. Það hefði hún ekki gert og gögn málsins bentu ekki til þess að nein slík rannsókn hefði farið fram af hálfu Sigríðar.

Í dómnum sagði: „Samkvæmt því hefði málsmeðferð hans verið andstæð 10. gr. stjórnsýslulaga og af því leiddi að það sama ætti við um meðferð Alþingis á tillögu ráðherra þar sem ekki hefði verið bætt úr þeim annmörkum sem málsmeðferð ráðherra var haldin.“

Í dómnum var fallist á miskabótakröfur Ástráðs og Jóhannesar Rúnars. Hæstiréttur sýknaði hins vegar ríkið af skaðabótakröfu og hafði áður vísað frá ógildingarkröfur Ástráðs og Jóhannesar Rúnars, sem laut að ógildingu þeirrar ákvörðunar dómsmálaráðherra að leggja ekki til við Alþingi að þeir yrðu skipaðir í embætti dómara við Landsrétt.

Hæstiréttur tók hins vegar afdráttarlausa efnislega afstöðu til málsins. Ef dómsmálaráðherra ætlaði að víkja frá áliti dómnefndar um veitingu dómaraembættis yrði slík ákvörðun að vera reist á frekari rannsókn ráðherra, líkt og kveðið er á um í stjórnsýslulögum.

Íslenska ríkið dæmt til að greiða skaða- og miskabætur

Jón Höskulds­son og Ei­ríkur Jóns­son leituðu í kjölfarið réttar síns og var ís­lenska ríkið dæmt til að greiða þeim skaða- og miska­bætur þar sem þeir hlutu ekki skipun, þvert á mat nefndarinnar. Í októ­ber 2018 komst Héraðs­dómur Reykja­víkur að því að Jóni skyldu greiddar fjórar milljónir í skaða­bætur og 1,1 milljón í miska­bætur vegna lands­réttar­málsins. Þá var skaða­bóta­skylda Ei­ríks viður­kennd en hann átti eftir að sækja bætur sínar. 

Í mars á þessu lækkaði Landsréttur bætur sem Jóni voru dæmdar og komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að Eiríkur Jónsson, sem þá var orðinn dómari við Landsrétt, ætti ekki rétt á neinum bótum. Sami dómari skilaði sératkvæði í báðum málunum. 

Eiríkur var skipaður dómari við Landsrétt í ágúst á síðasta ári þegar Vilhjálmur Vilhjálmsson hætti vegna aldurs.

Hæstirétt­ur féllst í maí á þessu ári á mál­skots­beiðni Ei­ríks og Jóns og mun hann því taka mál þeirra fyrir. Í ákvörðunum Hæsta­rétt­ar um að veita áfrýj­un­ar­leyfi kom fram að líta yrði svo á að úr­slit þess­ara mála gæti haft for­dæm­is­gildi um þau atriði sem þeir Ei­rík­ur og Jón vísa til í mál­skots­beiðnum sín­um. Því var fall­ist á að veita leyfið – en enn liggur ekki fyrir niðurstaða hjá Hæstarétti. 

Vantrauststillaga felld

Samfylkingin og Píratar lögðu fram vantrauststillögu á dómsmálaráðherra í byrjun mars 2018 vegna framgöngu hennar í landsréttarmálinu en tillagan var felld. 33 þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði gegn vantrauststillögunni en 27 þingmenn stjórnarandstöðunnar og tveir þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði með tillögunni. Einn þingmaður Miðflokksins greiddi ekki atkvæði. 

Atkvæði féllu að mestu eftir flokkslínum. Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn vantrausti á dómsmálaráðherra. Það gerðu líka níu af ellefu þingmönnum Vinstri grænna.

Auglýsing

Ísland tapaði

Málinu var þó alls ekki lokið en í mars í fyrra – eða ári eftir vantrauststillöguna – var síðan greint frá því að Ísland hefði brotið gegn 6. grein mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu sem fjallar um rétt til rétt­látrar máls­með­ferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mán­aða fang­elsi í Lands­rétti. Ástæðan var sú að mað­ur­inn fékk ekki rétt­láta máls­með­ferð fyrir Lands­rétti vegna þess að Arn­fríður Ein­ars­dótt­ir, sem er dóm­ari við rétt­inn, hefði ekki verið skipuð í hann með lög­mætum hætt­i.  

Vil­hjálmur H. Vil­hjálms­­­son, verj­andi manns­ins, lagði fram kröfu í Lands­rétti þann 2. febr­­úar árið 2018 um að Arn­­­fríð­ur, sem átti að dæma í mál­inu, væri van­hæf í ljósi þess að hún hefði ekki verið skipuð með réttum hætti í emb­ætti. Lands­réttur hafn­aði kröfu Vil­hjálms og sagði að skipun Arn­fríðar yrði ekki hagg­að.

Vil­hjálmur kærði þá nið­ur­stöðu til Hæsta­réttar sem komst að sömu nið­ur­stöðu og Lands­rétt­ur. Þann 24. maí 2018 stað­festi Hæsti­réttur svo dóm Lands­réttar í mál­inu og skjól­stæð­ingur Vil­hjálms var dæmdur í 17 mán­aða fang­elsi.

Vil­hjálmur kærði í kjöl­farið þá nið­ur­stöðu að seta Arn­fríðar í Lands­rétti væri í sam­ræmi við lög til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu (MDE). Hann ákvað að taka málið fyrir í lok júní 2018 og veita því flýti­með­ferð sem endaði með þessari niðurstöðu. 

Þótti ekki ástæða til að stíga til hliðar

Sig­ríður taldi á þessum tíma dóm Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu ekki vera til­efni til þess að segja af sér. Hún sagð­ist ­áfram njóta trausts hjá rík­is­stjórn­inni allri og hafði því ekki í hyggju að segja af sér­. Hún sagði dóm­inn bæði ver­a ó­væntan og for­dæma­lausan og þá kæmi líka á óvart að dóm­ur­inn hefði klofnað í afstöðu sinni til máls­ins. 

Sig­ríður sagði það ekki koma sér á óvart að fólk væri að krefj­ast afsagnar hennar en hún taldi að þessi dómur gæfi ekki til­efni til þess. „­Menn hafa haldið því á lofti eins og þeir mögu­lega geta. En nei, ég tel nú ekki að þessi dómur gefi til­efni til þess og ég minni á og bendi á og árétta að afstaða íslenskra dóm­stóla til lög­mætis skip­unar dóm­ar­anna í Lands­rétti liggur alveg skýr fyr­ir. Það voru nú allar þrjár greinar rík­is­valds­ins sem einmitt komu að þeirri skipun og end­aði núna síð­ast með Hæsta­rétti sem dæmdi þessa skipun lög­mæta,“ sagði hún. 

Dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum í mars 2019 þar sem hún steig til hliðar.
Bára Huld Beck

Degi síðar, eða þann 13. mars 2019, tilkynnti Sigríður á blaðamannafundi í dómsmálaráðuneytinu að hún myndi stíga til hliðar sem dómsmálaráðherra. Á þeim fundi lýsti Sig­ríður afstöðu sinni til lands­rétt­ar­máls­ins í löngu máli, sagði að nið­ur­staðan hefði komið henni „veru­lega á óvart“ og að hún ætl­aði að stíga til hliðar sem ráð­herra á meðan að verið væri að fjalla meira um ­málið og vinna úr þeirri stöðu sem upp var kom­in. Hún hefði skynjað að hennar per­sóna kynni að hafa trufl­andi áhrif á frek­ari með­ferð máls­ins.

Það er hins vegar ekki hægt að stíga til hliðar tíma­bundið sem ráð­herra. Stjórn­skipun lands­ins gerir ein­fald­lega ekki ráð fyrir því. Sig­ríður var að segja af sér emb­ætti. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir tók tíma­bundið við sem dóms­mála­ráð­herra en sinnti áfram fyrri ráð­herra­störfum líka. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir tók við embætti dómsmálaráðherra í september sama ár. 

Yfirdeild MDE staðfesti niðurstöðuna

Þann 9. apríl 2019 ákvað íslenska ríkið að óska eftir end­ur­skoðun yfir­deildar Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu á dómnum sem féll 12. mars. Yfir­deildin stað­festi síðan þann 1. desember síðastliðinn dóm rétt­ar­ins í lands­rétt­ar­mál­inu.

Nið­ur­staðan var sú að Guð­mundur Andri Ást­ráðs­son, maður sem dæmdur var fyrir umferð­ar­laga­brot í Lands­rétti skömmu eftir að milli­dóms­stigið tók til starfa, hefði ekki notið þess að fá úrlausn máls síns fyrir sjálf­stæðum og óvil­höllum dóm­stól. 

Yfir­deild dóm­stóls­ins, sem skipuð var 17 dóm­ur­um, var ein­róma um að brotið hefði verið gegn rétti hans til rétt­látrar máls­með­ferð­ar, þar sem Arn­fríður Ein­ars­dótt­ir hefði ekki verið skipuð með lög­mætum hætti. Íslenska rík­inu var gert að greiða Guð­mundi Andra 20 þús­und evrur í máls­kostn­að.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar