„Það veit enginn almennilega hvernig þetta fer. Staðan er grafalvarleg. Það er engin leið að líta framhjá því að það eru tvær vikur þangað til að þeir eiga að fara út úr Evrópusambandinu. Og það er engin lausn ennþá á því hvernig það mun fara.“
Þetta sagði Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, um stöðuna á Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu,í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni. Eiríkur var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í þættinum. Hægt er að sjá stiklu úr honum hér að neðan.
Breska þingið hefur tvívegis hafnað útgöngusamningi sem Theresa May forsætisráðherra landsins hefur lagt fyrir það. Auk þess hafnaði það í vikunni því að ganga út úr sambandinu án samnings og að óska eftir frestun á útgöngu, en útgöngudagur Breta er settur 29. mars næstkomandi.
Eiríkur sagði þetta alveg ótrúlega stöðu fyrir breska þjóðþingið að vera í. „Og fyrir bresku þjóðina alla og það er óljóst hvernig þeir geta komist út úr þessu.“
Eiríkur greindi frá því að hann hefði heyrt skemmtilega kenningu innan úr breska Íhaldsflokknum, þar sem menn væru að velta því fyrir sér að Theresa May gætti staðið frammi fyrir því að hreinlega afturkalla úrsögnina. „Þá er málið komið á núllpunkt og hún þyrfti eflaust að segja af sér og boða til nýrra kosninga.“