Almenna leigufélagið hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum upp á nýja þjónustu á leigumarkaði þar sem leigjendum er gefinn kostur á leigu til allt að sjö ára á föstu leiguverði sem sé einungis tengt vísitölu neysluverðs. Nýja þjónustan heitir Alma og segir í tilkynningu frá félaginu að Alma bjóði áður „óþekkt húsnæðisöryggi“ á íslenskum leigumarkaði. Sjóður sem á Almenna leigufélagsins er í stýringu hjá GAMMA, sem jafnframt er í eigu Kviku.
Samningarnir gerðir í eitt ár í senn
Í tilkynningu frá Almenna leigufélagið segir að félagið hafi unnið að þessari nýju þjónustu um nokkurt skeið en í nýju samningunum felst leiguöryggi til allt að sjö ára. Samningarnir verða gerðir til árs í senn en að ári liðnu hefur leigjandinn einhliða rétt á að framlengja samninginn um annað ár. Leigjandi getur framlengt allt að sex sinnum eða í allt að sjö ár. „Þegar samningur er framlengdur kemur ekki til neinnar hækkunar á leiguverði umfram breytingar á vísitölu neysluverðs og er því leiguverð tryggt til allt að sjö ára.“ segir í tilkynningunni.
Nýjir eigusamningar Ölmu standa til boða öllum nýjum viðskiptavinum frá 19. mars næstkomandi , auk þess sem öðrum viðskiptavinum verður boðið að skipta yfir þegar þeirra samningar renna út, samkvæmt tilkynningunni. Jafnframt verði áfram boðið upp á styttri leigusamninga með styttri uppsagnarfresti.
Sammála um að breytinga væri þörf á íslenskum leigumarkaði
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, mótmælti fyrr í mánuðinum fyrirhuguðum hækkunum á leigu hjá Almenna leigufélaginu með því að hóta að taka út rúma 4 milljarða króna sem VR á í stýringu hjá Kviku. Eftir fundi milli formanns VR og framkvæmdastjóra Almenna leigufélagsins var ákveðið að falla frá hækkuninni.
Í tilkynningunni frá félaginu segir að forsvarsmenn Almenna leigufélagsins og VR hafi verið sammála um að breytinga væri þörf á íslenskum leigumarkaði þar sem háir vextir þrýsti á leiguverð, hvort sem það sé í félagslega kerfinu eða á hinum almenna markaði. Auk þess hafi forsvarsmenn félaganna verið sammála um að mikilvægt væri að íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir langtímafjárfestar kæmu með öflugum hætti að fjármögnun leigufélaga til þess að skapa grundvöll fyrir lægri leigu, stöðugra leiguumhverfi og aukið húsnæðisöryggi.