Loðdýrabú hafa verið rekin með tapi hér á landi frá árinu 2014. Rekstraraðilum í loðdýrarækt fækkaði um þrettán frá árinu 2013 til árins 2017, og störfuðu þá þrjátíu aðilar í greininni. Frá þessu er greint á vef Hagstofunnar. Í fjárlögum 2019 eru þrjátíu milljónir eyrnamerkatar tímabundnu framlagi til Byggðastofnunar vegna vanda greinarinnar. Auk þess hafa samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ákveðið að skipa sérstakt teymi til að greina framtíðarhorfur minkaræktunar.
Þrettán minkabændur eftir á Íslandi
Tekjur loðdýrabúa námu 726 milljónum króna árið 2017 en gjöld 873 milljónum króna. Árið 2017 reyndust eignir aðila í loðdýrarækt vera um 1.461 milljónir króna og eigið fé 161 milljón króna.
Í september í fyrra var greint frá því að loðdýrabændur á Íslandi stæðu frammi fyrir miklum vanda vegna mikillar lækkunar á heimsmörkuðum á skinnum en árið 2018 náði söluverð ekki helming þess verðs sem kostar að framleiða hvert skinn. Þá hafa fimm minkabændur hætt frá því í nóvember í fyrra og eru þá þrettán bændur eftir. Á árunum 1987 til 1989, þegar loðdýrabændur á Íslandi voru flestir, voru þeir 240. Sé litið til fjölda þeirra eftir aldamótin 2000 hafa þeir flestir verið 45.
Jákvætt að ríkisvaldið vilji að á Íslandi sé áfram stunduð minkarækt
Einar E. Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, sagði í samtali við Bændablaðið í desember í fyrra að það gangi ekki til lengdar að minkarækt hér á landi hefði verið rekin með tapi undanfarin þrjú ár. Loðdýrabændur lögðu því til um mitt síðasta ár að gerður yrði samningur við ríkið til þriggja ára og að ríkið legði til 200 milljónir að meðaltali á ári til að bjarga greininni. Á vef Bændablaðsins segir að það hafi verið hugsað þannig að helmingur færi til að halda fóðurstöðvunum gangandi og hinn helmingurinn til bænda vegna bráðaaðgerða.
Í fjárlögum fyrir árið 2019 sem samþykkt voru í desember eru 30 milljónir króna lagðar til Byggðastofnunar vegna vanda greinarinnar. Auk þess hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti ákveðið að skipa sérstakt teymi til að greina framtíðarhorfur minkaræktar. Að mati Einars er framlag stjórnvalda fremur lágt miðað við það sem minkabændur fóru fram á en engu að síður viðleitni til að horfa fram á við og finna leiðir til að halda áfram. „Vissulega er einnig mjög jákvætt að ríkisvaldið hafi þó þrátt fyrir allt komist að þeirri niðurstöðu að þeir vildu að á Íslandi yrði stunduð áfram minkarækt. Við höldum því áfram á næstu vikum og mánuðum að vinna með stjórnvöldum að uppbyggingu greinarinnar og vonandi fara að taka við betri tímar en verið hafa,“ sagði Einar í samtali við Bændablaðið.
Loðdýrarækt bönnuð í Noregi frá 2025
Í byrjun árs 2018 tilkynnti forsætisráðherra Noregs að árið 2025 tæki við algjört bann við loðdýrarækt til skinnframleiðslu. Loðdýrarækt hefur dregist mjög saman í Noregi síðustu ár og áratugi. Samkvæmt frétt The Independent voru um 20.000 loðdýrabú í Noregi árið 1939, og norskir loðskinnsframleiðendur ráðandi á heimsmarkaðnum. Árið 2013 var hlutdeild þeirra á heimsmarkaðnum hins vegar komin niður í þrjú prósent refaskinna og eitt prósent minkaskinna.
Norskir loðdýrabændur brugðust illa við þessum áformum ríkisstjórnarinnar en í Noregi eru um 200 loðdýrabú sem velta á bilinu 4,5 til 6,5 milljörðum íslenskra króna árlega. Norsk dýraverndunarsamtök, sem og alþjóðleg, tóku fréttunum þó fagnandi. Að þeirra mati er loðskinnsframleiðsla gamaldags og grimmdarlegur iðnaður sem fólk um allan heim afneiti nú í æ ríkari mæli.