Brynjólfur Bjarnason er orðinn stjórnarformaður Arion banka eftir stjórnarkjör á aðalfundi bankans í dag. Herdís Dröfn Fjeldsted er varaformaður stjórnar, en aðrir í stjórn eru Benedikt Gíslason, Liv Fiksdahl, Renier Lemmens og Steinunn Kristín Þórðardóttir.
Brynjólfur tók sæti í stjórn bankans á aðalfundi 20. nóvember 2014. Brynjólfur útskrifaðist með MBA-gráðu frá University of Minnesota árið 1973. Hann útskrifaðist með cand.oecon.-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1971, og hefur gegnt margvíslegum stjórnendastörfum í íslensku atvinnulífi undanfarna áratugi.
Markaðsvirði Arion banka lækkaði um 2,99 prósent í dag og nemur það um 155,8 milljörðum króna þessi misserin og er félagið næst verðmætasta skráða félag landsins á eftir Marel, en markaðsvirði þess nemur nú um 342 milljörðum króna.
Eigið fé Arion banka nam 200,9 milljörðum króna í lok árs í fyrra. Bankinn er skráður á markað hér á landi og í Svíþjóð.