John Hamilton, framkvæmdastjóri verkfræðisviðs Boeing, er hættur störfum og má rekja það til rannsóknar á tveimur flugslysum, í Indónesíu í október og Kenía fyrr í mánuðinum, sem leiddi til þess að allir um borð létust í báðum tilvikum, samtals 346.
Eins og greint hefur verið frá þá hefur flug verið bannað á Boeing 737 Max vélunum á meðan það er rannsakað hvað olli því að vélarar hröpuðu skömmu eftir flugtak. Það létust 189 í slysinu í Indónesíu en 157 í Kenía.
Spjótin beinast að hugbúnaði í vélunum, svokölluðu MCAS-kerfi, sem á að koma í veg fyrir ofris. Samkvæmt skrifum Seattle Times hefur uppfærsla á kerfinu miðað að því að gera það öruggara, meðal annars með því að hafa dýpri gagnagrunna að baki skynjarakerfinu, svo að það geti ekki farið í gang upp úr þurru og valdið slysum. Mikið er undir í þessari vinnu, eins og gefur að skilja.
Seattle Times hefur fjallað ítarlega um stöðu mála hjá Boeing frá því fyrir slysin bæði, og meðal annars sagt frá mikilli framleiðslupressu svo félagið geti staðið við afhendingar á nýjum vélum til viðskiptavina. Ljóst er að það verður mikið vandamál hjá félaginu á meðan ekki hefur fengist botn í það hvað nákvæmlega olli slysunum.
Í slysinu í Indónesíu náði aukaflugmaður á frívakt að koma í veg fyrir slys, samkvæmt umfjöllun Bloomberg í dag, degi áður en sama vél hrapaði með fyrrgreindum afleiðingum, með því að slökkva á kerfi vélarinnar og taka sjálfur stjórnina og lenda vélinni. Hann greindi flugmálayfirvöldum frá því að það væri eitthvað að vélinni og að það þyrfti að skoða skynjara sem tengjast fyrrnefndu MCAS-kerfi.
Í umfjöllun Seattle Times hefur komið fram, að blaðið sendi fyrirspurnir til Boeing og flugmálayfirvalda í Bandaríkjunum, varðandi uppfærslu á kerfinu og hvort Boeing hefði fengið að hafa eftirlit með eigin vinnu, til að geta staðið við framleiðsluáætlun. Blaðið sagðist hafa heimildir fyrir því. Þetta var ellefu dögum fyrir seinna slysið.
Í dag greindi það frá því að varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, væri farið af stað með sjálfstæða rannsókn á því hvort vandamálunum hjá Boeing hefði verið sópað undir teppið hjá bandarískum flugmálayfirvöldum.
Bandarísk flugmálayfirvöld neituðu fyrst að banna flug á fyrrnefndum vélum frá Boeing, en eftir að flest ríki og alþjóðastofnanir gerðu það, þá létu bæði Boeing og bandarísk yfirvöld undan. Evrópusambandið ítrekaði í dag að bannið yrði í gildi þar til öllum spurningum hefði verið svarað.
Boeing er stærsti vinnuveitandinn á Seattle svæðinu með um 80 þúsund starfsmenn, en í fullum afköstum hefur fyrirtækið verið að koma frá sér yfir 50 vélum á mánuði til viðskiptavina, undanfarin misseri.
Í umfjöllun Reuters hefur komið fram að vandamálin hjá Boeing, og bannið við notkun á 737 Max vélunum, hafi leitt til mikilla vandamála hjá mörgum flugfélögum sem eigi erfitt með að halda áætlunum sínum, þar sem erfitt er að fá nýjar vélar.
Airbus, samkeppnisaðili Boeing, getur ekki annað eftispurn, og því hafa skapast aðstæður, þar sem flugfélög hafa einfaldlega þurft að fella niður ferðir eða endurskipuleggja áætlanir sínar mikið, með tilheyrandi erfiðleikum fyrir viðskiptavini og kostnaðaraukningu í rekstri.
Icelandair tók þrjár vélar úr notkun, en segist hafa svigrúm til skamms tíma til að mæta því með notkun á öðrum vélum í flota sínum. Til langs tíma miða hins vegar áætlanir að því að fá nýjar 737 Max vélar frá Boeing.
Uppfært: 20:26. Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur einnig hafið rannsókn á Boeing og sambandi þess við bandarísk flugmálayfirvöld, að því er Seattle Times greindi frá í kvöld.