„Stjórnvöld hafa síðasta árið fylgst með erfiðleikum í alþjóðlegum flugrekstri og samkeppnisstöðu íslenskra flugfélaga í því ljósi. Eigendur Wow air hafa um nokkurra mánaða skeið leitað leiða til að tryggja rekstur félagsins og hafa átt viðræður við fjárfesta, flugrekendur og aðra haghafa. Hingað til hafa þær viðræður ekki skilað þeim árangri sem eigandi félagsins stefndi að. Ríkisstjórnin mun áfram fylgjast grannt með framvindunni og bindur vonir við að viðræður félaganna muni skila farsælli niðurstöðu.“
Þannig hljómar tilkynning frá ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, vegna tilkynningar um að Icelandair og WOW air hafi hafið viðræður um sameiningu eða kaup Icelandair á síðarnefnda félaginu, eftir að það slitnaði upp úr viðræður WOW air og bandaríska félagsins Indigo Partners.
Icelandair segir í tilkynningu að af viðskiptunum muni ekki verða nema á grundvelli þess að WOW air, sem Skúli Mogensen á og stýrir, sé skilgreint sem fyrirtæki á fallandi fæti, í skilningi samkeppnislaga.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, þá er staðan í flugiðnaði um margt krefjandi um þessar mundir, og hafa íslensku flugfélögin fundið fyrir því. WOW air hefur verið í neyðarvanda um langt skeið, þar sem félagið þarf nauðsynlega á fjárinnspýtingu að halda til að geta lifað af.
Icelandair tapaði 6,8 milljörðum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, en eiginfjárstaða félagsins er traust, en það nam um 55 milljörðum í lok árs.