Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að í ljósi fjórðu iðnbyltingarinnar og þeirrar sjálfvirknivæðingar sem sé fyrir dyrum þá þurfi Íslands að takast á við þær áskoranir að fjölga iðn- og tæknimenntuðu fólki.
Hún telur að sjálfvirknivæðingin verði góð fyrir fámenna þjóð eins og Ísland. „Það sem okkur hefur oftast skort er vinnuafl. En núna þegar við erum komin með þessa tækni og við erum að fjárfesta í henni og við erum með mannauðinn þá á okkur að vegna vel á næstu árum. En þá þurfum við að hafa öflugt menntakerfi til að búa til þessa þekkingu. Og þess vegna er ég að segja að grunnurinn að þessu öllu eru kennararnir í landinu.“
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Lilja sagði að Íslendingar þurfi hiklaust að grípa til aðgerða vegna þessa.
Þegar litið sé á þann fjölda sem útskrifist starfs-, iðn- og tæknigreinunum þá séu allt önnur hlutföll hjá okkur en til að mynda á Norðurlöndunum og önnur ríki sem standi mjög framarlega í þessum málum. „Við ætlum að fjölga iðnmenntuðum og þeim sem eru í tæknigreinum og erum búin að vera að forgangsraða fjármunum í þá veru. Við höfum verið að auðvelda aðgengi með því að fella niður efnisgjöld í þessum greinum. En þarna þurfum við að gera meira.“