Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti nýverið fyrir ríkisstjórn áform um nýtt stuðningskerfi fyrir námsmenn.
Hún segir að leiðarljósið í því sé í fyrsta lagi að fólk geti sótt sér nám óháð efnahag og búsetu og í öðru lagi að Ísland sé með þannig stuðningskerfi að það sé samanburðarhæft við hin Norðurlöndin. „Við viljum ekki að það verði hérna spekileki frá landinu.“
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Lilju í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í vikunni.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan
.Fleiri Íslendingar fluttu frá Íslandi á síðasta ári en komu aftur heim. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar voru 75 fleiri en þeir sem fluttu til landsins, samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Það gerðist þrátt fyrir gott árferði, nær ekkert atvinnuleysi, stóraukinn kaupmátt og fordæmalausa efnahagslega stöðu þjóðarbúsins.
Eina tímabilið af þessum átta sem sker sig úr er 2014 til 2015 þar sem engar hefðbundnar efnahagslegar forsendur eru fyrir auknum brottflutningi. Fólk flutti frá Íslandi þrátt fyrir efnahagslegan uppgang.
Þessi þróun hélt áfram á árinu 2016 þegar brottfluttir Íslendingar voru 190 fleiri en aðfluttir.
Hvorki Hagstofa Íslands né Þjóðskrá Íslands safna saman upplýsingum um menntunarstig þeirra Íslendinga sem kjósa að flytja af landi brott. Því liggur ekki fyrir svart á hvítu hvort um sé að ræða langskólagengið fólk eða ekki.
Lilja segir að verið sé að vinna í því að meta hver staðan sé á aðfluttum og brottfluttum frá landinu út frá menntunarstigi. „Ég hef kallað eftir þessu meðal annars til þess að byggja grunninn að þessu nýja kerfi sem við erum að fara að kynna.“
Það þurfi að liggja fyrir hvort að það sé flótti ákveðinnar tegundar fólks frá landinu eða ekki. „Markmiðið er að við séum þekkingarsamfélag og við höfum allt i það.“
Hún bætti við að frumvarp um nýja námslánakerfið, sem mun verða kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda í júní, yrði lagt fram á haustþingi. Þær breytingar sem frumvarpinu er ætlað að innleiða felast meðal annars í því að námsstyrkur ríkisins verði gagnsærri og meira jafnræði verði meðal námsmanna og mun nýju kerfi þannig svipa meira til norrænna námsstyrkjakerfa. Stefnt er að því að nýtt stuðningskerfi taki gildi frá og með haustinu 2020.
Í fréttatilkynningu frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna frumvarpsins, sem send var út í gær, segir námsaðstoðin sem lánasjóðurinn mun veita yrði áfram í formi lána á hagstæðum kjörum eftir breytingarnar en til viðbótar verði beinar styrkjagreiðslur vegna framfærslu barna og 30 prósent niðurfelling á hluta af námslánum við lok prófgráðu innan skilgreinds tíma. „Stefnt er að því að bæta fjárhagsstöðu nemenda, ekki síst þeirra sem hafa börn á framfæri, og hvetja nemendur til að klára nám sitt á tilsettum tíma. Í því felst ávinningur fyrir námsmenn sem og þjóðhagslegur ávinningur fyrir samfélagið allt sem útreikningar gera ráð fyrir að geti numið allt að 1,2 milljörðum kr. á ári.“