Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir alla vera sigurvegara þegar kemur að máli um innleiðingu 3. Orkupakkans og telur góða sátt ríkja um hann innan Sjálfstæðisflokksins eftir að gert hafi verið grein fyrir hugsanlegum hættum hans á síðustu mánuðum. Þetta kom fram í viðtal við Guðlaug í Silfrinu á RÚV í dag.
Kjarninn greindi frá því fyrir helgi að Guðlaugur muni leggja fram þingsályktunartillögu fyrir Alþingi um innleiðingu pakkans hér á landi undir lok mánaðarins, en skiptar skoðanir hafi verið innan Sjálfstæðisflokksins um hann. Ýmis hverfafélög flokksins hafa lýst sig andsnúna innleiðingu hans og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og áhrifamaður í flokknum, sagði í pistli á vefsíðu sinni síðastliðinn fimmtudag að hörð átök væru væntanleg innan flokksins vegna pakkans.
Í viðtalinu sagði Guðlaugur að með leiðinni sem ríkisstjórnin væri að fara með orkupakkann væri hann innleiddur á íslenskum forsendum.
Ríkisstjórnin hafi farið í vinnu með sérfræðingum hvort fótur væri fyrir þeim áhyggjum sem lagðar höfðu verið fram af grasrótinni innan Sjálfstæðisflokksins. Áhyggjurnar höfðu verið tvenns konar: í fyrsta lagi hvort innleiðing pakkans myndi standast stjórnarskrá þar sem eftirlitsvald eftir íslenskri auðlind yrði í höndum fjölþjóðlegrar stofnunar og í öðru lagi hvort við myndum tengjast raforkumarkaði Evrópu hvort sem okkur líkaði betur eða verr.
Guðlaugur sagði alla sérfræðinga vera á því að innleiðingin standist stjórnarskrá og benti á að hvers konar hugsanleg ákvörðun um lagningu sæstrengs þyrfti að fara í gegnum Alþingi fyrst með tilheyrandi umræðu um fullveldisframsal.
„Þú getur sagt með réttu að grasrótin sem vakti athygli á þessu hafi sigur í þessu máli,“ sagði utanríkisráðherrann og bætti við að honum þætti raunar allir aðilar vera sigurvegarar. Aðspurður hvort orð Styrmis Gunnarssonar um væntanleg átök innan Sjálfstæðisflokksins vegna orkupakkans vera staðlausir stafir segist Guðlaugur ekki hafa áhyggjur af því. „Ég tel að það ríki mjög góð sátt um þetta.“