Flugi WOW air frá Gatwick til Keflavíkur sem áætlað var seint í kvöld hefur verið aflýst, að því er fram kemur á vef mbl.is. Þetta er annað flug WOW air frá Gatwick til Keflavíkur í dag sem er aflýst, en flugi félagsins til Lundúna í morgun var aflýst.
Í fréttum RÚV í kvöld koma fram, að upplýsingafulltrúi WOW air, Svanhvít Friðriksdóttir, hefði greint RÚV frá því, að áætlunarflug ætti að ganga samkvæmt áætlun á morgun.
Í skilaboðum sem farþegar fengu send seinnipartinn í dag, vegna flugsins frá London til Keflavíkur, segir að fluginu hafi verið frestað vegna rekstrartakmarkana (e. Operational restrictions), að því er fram kemur á mbl.is.
Eins og komið hefur fram í dag, þá reynir Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, nú allt til að bjarga félaginu frá gjaldþroti, en staða félagsins er fallvölt. Í fréttaskýringu á vef Kjarnans í dag, segir að kapp sé lagt á það að styrkja fjárhagsstöðu félagsins með því að grynnka á skuldum - með því að umbreyta þeim í hlutafé - og fá inn meira fjármagn til rekstrarins.
Þetta er hins vegar kapp við tímann, þar sem fjárhagsstaðan er erfið og mánaðarmót framundan, sem kosta félagið mörg hundruð milljónir króna, þar sem greiða þarf laun og standa við aðrar skuldbindingar.
Fram kom í viðtali á Stöð 2 í kvöld, við Breka Karlasson, formann Neytendasamtakanna, að fólk hefði mikið sett sig í samband við samtökin vegna stöðu WOW air, enda fjöldi fólks með bókuð flug og vill fá á hreint hvernig réttarstaða þess er.
Fulltrúar WOW air hafa fundað með Samgöngustofu í dag, en hún gefur út flugrekstrarleyfi og getur svipt félög þeim leyfum, ef þau uppfylla ekki skilyrði til að sinna rekstrinum, samkvæmt mati stofunnar.