Ríkislögmaður neitar að afhenda Kjarnanum sérfræðiálit og önnur gögn, meðal annars á minnisblöðum, sem unnin voru í tengslum við hið svokallaða Landsréttarmál, sem ríkið tapaði fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.
Fyrirspurn Kjarnans til forsætisráðuneytisins var vísað til embættis Ríkislögmanns, en hann hefur svaraði erindinu með bréfi, og neitar að afhenda gögnin.
Kjarninn hefur kært þá afstöðu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, og vísar til þess að það sé meginregla að stjórnsýslan eigi að vera gagnsæ, og að gögnin sem óskað er eftir eigi erindi við almenning.
Eins og kunnugt er tapaði íslenska ríkið Landsréttarmálinu fyrir Mannréttindadómstólnum.
Ísland braut gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi í máli gegn manni sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi í Landsrétti.
Ástæðan er sú að maðurinn fékk ekki réttláta málsmeðferð fyrir Landsrétti vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir, sem er dómari við réttinn, hafi ekki verið skipuð í hann með lögmætum hætti.
Sigríður Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, tilnefndi dómarana sem skipaðir voru í Landsrétt og Alþingi samþykkti þá skipan.
Hún sagði af sér í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstólsins, og hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nú tekið við sem dómsmálaráðherra, samhliða því að vera ráðherra, ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar í atvinnuvegaráðuneytinu.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl., verjandi mannsins, lagði fram kröfu í Landsrétti þann 2. febrúar í fyrra um að Arnfríður, sem átti að dæma í málinu, væri vanhæf í ljósi þess að hún hefði ekki verið skipuð með réttum hætti í embætti. Landsréttur hafnaði kröfu Vilhjálms og sagði að skipun Arnfríðar yrði ekki haggað.
Vilhjálmur kærði þá niðurstöðu til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og Landsréttur. Þann 24. maí 2018 staðfesti Hæstiréttur svo dóm Landsréttar í málinu og skjólstæðingur Vilhjálms var dæmdur í 17 mánaða fangelsi.
Vilhjálmur kærði í kjölfarið þá niðurstöðu að seta Arnfríðar í Landsrétti væri í samræmi við lög til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann ákvað að taka málið fyrir í lok júní og veita því flýtimeðferð.
Arnfríður var einn fjögurra umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt sem dómsmálaráðherra lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjögurra sem sérstök dómnefnd mat hæfasta. Hæstiréttur Íslands komst svo að þeirri niðurstöðu í desember 2017 að dómsmálaráðherra hefði brotið stjórnsýslulög með því að sinna ekki rannsóknarskyldu sinni með nægjanlegum hætti þegar hún ákvað að skipta út þeim umsækjendum sem metnir höfðu verið hæfastir af dómnefndinni.
Vilhjálmur, lögmaður mannsins sem kærði hæfi Arnfríðar til Mannréttindadómstólsins, taldi að dómsmálaráðherra hefði handvalið umsækjendur á þann lista sem hún lagði fyrir Alþingi til samþykktar. Það hafi hún gert á grundvelli vináttu og pólitískra tengsla.
Í málatilbúnaði Vilhjálms var því haldið fram að Arnfríður hafi verið skipuð sem hluti af hrossakaupum innan Sjálfstæðisflokksins þar sem Brynjar Níelsson gaf í staðinn eftir oddvitasæti sitt í öðru Reykjavíkurkjördæminu í síðustu kosningum til Sigríðar Á. Andersen.
Auk þess hafi Sigríður hafnað öðrum umsækjendum, sem dómnefndin hafi mælt með að skipa, á grundvelli pólitískra skoðana þeirra. Ríkislögmaður telur að í þessum málatilbúnaði Vilhjálms felist sú fullyrðing að spilling hafi ráðið því hverjir hafi verið skipaðir dómarar við Landsrétt.
Mannréttindadómstólinn ákvað, líkt og áður sagði, að taka kæruna til meðferðar í lok júní 2018 og fór fram á skýringar frá íslenska ríkinu.
Spurningar Mannréttindadómstólsins til íslenska ríkisins voru í tveimur liðum. Þar var annars vegar spurt hvernig það samrýmdist ákvæði mannréttindasáttmála að skipun dómara hafi ekki fylgt þeim ákvæðum laga að Alþingi skuli greiða atkvæði um hvert og eitt dómaraefni fyrir sig, í stað þess að greiða atkvæði um tillögu ráðherrans í heild eins og gert var.
Hins vegar var spurt um niðurstöðu Hæstaréttar frá því í maí í fyrra í samhengi við fyrri dóm Hæstaréttar um brot ráðherrans á lögum við skipunina. Með öðrum orðum vildi Mannréttindadómstólinn vita hvernig ólögleg skipan dómara geti haldist í hendur við þá niðurstöðu að sömu dómarar sitji löglega í réttinum.
Niðurstaðan var eins og áður sagði, íslenska ríkinu í óhag, og er nú verið að vinna í því að ákveða hver næstu skref verða.