Átta félagasamtök sem mótmæltu hvalveiðum fyrir framan Alþingi síðasta sunnudag hafa sent stjórnvöldum opið bréf. Í bréfinu lýsa samtökin yfir miklum óhug vegna ákvörðunar Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, um að endurnýja leyfi til veiða á langreyðum og hrefnum til ársins 2023. Samtökin segjast ekki skilja þegar að það kemur að svo „umdeildu málefni“ að aðrir úr ríkisstjórninni hafi ekki mótmælt harðlega og þrýst á að ákvörðunin sé dregin til baka. Samtökin óska eftir formlegum fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar.
Einn mikilvægasti hlekkurinn í bardaganum gegn loftslagsbreytingum
Í bréfinu vitna samtökin í leiðréttingu sérfræðinga frá Vistfræðifélagi Íslands á skýrslunni Þjóðhagsleg áhrif hvalveiða sem birt var af hagfræðideild háskóla Íslands í janúar 2019. Í bréfinu segir að í leiðréttingu sérfræðinganna sé fjallað um hvernig hvalir framleiða næringarrík úrgangsský og með því að enda lífdaga sína í hafinu sjálfu og sökkva til botns sjái hvalir um grundvallar kolefnisbindingu frá loftslagið. Hvalir séu því einn mikilvægasti hlekkurinn í bardaganum gegn loftslagsbreytingum.
Samtökin spyrja því hvort það sé ekki eitthvað bogið við það að gefa út veiðileyfi á tegund sem sé „einn helsti stríðsmaður okkur“ gegn loftslagsbreytingum. „Loftslagsbreytingar eru stærsta vá nútímans fyrir jörðina og allt mannkyn. Vikum saman hafa nemendur um allan heim farið í skóla-verkfall til að krefjast þess að yfirvöld hefji strax öflugar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, líka á Íslandi. Er ekki eitthvað bogið við það að á sama tíma og nemendur mótmæla, þykir eðlilegt að gefa út veiðileyfi á tegund sem er einn helsti stríðsmaður okkar gegn loftslagsbreytingum?,“ segir í bréfinu og samtökin benda jafnframt á að í aðgerðaætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum sé ekki minnst einu orði á hafið.
Óskiljanlegt að vernda hvali á einu svæði og leyfa dráp á þeim á öðru svæði
Í bréfinu segir að það sé gleðiefni að fyrirtæki í hvalaskoðun hafi verið að vinna með borgarráði í að búa til nýtt friðland sem og að stækka núverandi friðland hvala. Samtökin segja að velgengni hvalaskoðunarfyrirtækja á Íslandi sýni að hvalir séu mun verðmætari lifandi en dauðir. „Það er okkur hinsvegar með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er að réttlæta að vernda hvali á einu svæði, hvetja fólk til að sjá þá frjálsa í náttúrunni og á sama tíma leyfa dráp á þeim rétt utan við það svæði?“
Jafnframt er bent á í bréfinu að hvalkjötsát sé ekki stundað af neinu ráði á Íslandi. „Þeirri lygi sem jafnan er haldið fram, að sterk hefð sé fyrir hvalkjötsáti á Íslandi á sér ekki einu sinni stoð í raunveruleikanum heldur er þetta eitthvað sem við öpuðum eftir Norðmönnum fyrir nokkrum áratugum.“ Í bréfinu er vitnað í Gallup könnun frá 2017 þar sem aðeins 1 prósent Íslendinga sögðust borða hvalkjöt reglulega en alls 81 prósent sögðust aldrei hafa borðað það.
Óska eftir fundi með ríkisstjórninni
Að lokum segir í bréfinu að vegna þeirra ofangreinda atriða sem samtökin telja upp í bréfinu, auk þeirra „augljósa spillingar- og hagsmunatengslum“ sem valdi því að nýr hvalveiðikvóti var gefinn út þá hafi samtökin átta ákveðið að mótmæla fyrir framan Alþingi þann 24. mars síðastliðinn. Samtökin óska jafnframt eftir formlegum fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar.
Undir bréfið skrifa samtökin Gaia Iceland, Jarðarvinir, Reykjavik Animal Save, Reykjavik Whale Save, Samtök grænkera á Íslandi, Sea Shepherd Iceland, SEEDS Iceland, Stop Whaling in Iceland.