Opinn fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis stendur nú yfir en Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, situr fyrir svörum um stjórnsýslu bankans vegna Samherjamálsins svokallaðs.
Seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, mun mæta fyrir nefndina á eftir, auk Rannveigar Júníusdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands.
Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá fundinum hér.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í nóvember síðastliðnum að Seðlabanki Íslands hefði ekki haft heimild til að leggja stjórnvaldssekt á Samherja. Gjaldeyriseftirlit bankans taldi Samherja hafa brotið gjaldeyrislög og gerði húsleit hjá fyrirtækinu árið 2012.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sat fyrir svörum eftirlits- og stjórnsýslunefndar Alþingis í byrjun mánaðarins. Á fundi nefndarinnar ræddi hann um stjórnsýslu bankans á tímum gjaldeyrishafta og Samherjamálið. Hann sagði meðal annars að málið gæfi tilefni til að huga betur að aðgreiningu verkefna hjá stofnunum sem er falið eftirlitshlutverk og vald til að beita viðurlögum. Hann sagðist þar misboðið fyrir hönd þeirra borgara sem hlut eiga að máli vegna málsins.