„Seint í gærkvöldi hafði ég spurnir af því að þetta gæti horft til verri vegar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra aðspurð um hvenær hún hefði fengið upplýsingar um stöðu WOW air, sem hætti starfsemi snemma í morgun.
Katrín segir í samtali við Kjarnann að hún hefði fengið tölvupóst um miðnætti um að búið væri að kyrrsetja vélar WOW air í Kanada og Bandaríkjunum. Í tölvupóstinum voru líka upplýsingar um að nýir möguleikar væru til staðar hjá WOW air sem gætu tryggt áframhaldandi starfsemi flugfélagsins. „Snemma í morgun fékk ég staðfestingu á því að það stefndi í að flugfélagið myndi skila inn leyfinu.“
Katrín segir að stjórnvöld hafi verið með sérstakan viðbúnaðarhóp undirbúin mánuðum saman ef að þessi staða kæmi upp. Það væri hluti af viðbragðsáætlun stjórnvalda. Sá hópur var ræstur út og fundaði strax í morgun en helsta hlutverk hans er að koma farþegum WOW air sem eru strandaglópar á milli staða. Katrín segir að um sé að ræða um fjögur þúsund farþega sem séu hér og þar í heiminum.
Kom ekki til greina að ríkið kæmi að WOW air
Fjölmiðlar hafa greint frá því að undanförnu að WOW air hafi falast eftir ríkisaðstoð vegna stöðu sinnar og Skúli Mogensen, fráfarandi forstjóri og eigandi WOW air, hefur vísað í þá aðstoð sem Icelandair hefur fengið í gegnum tíðina frá hinu opinbera til að rökstyðja þá kröfu.
Katrín segir að það hafi ekki borist nein beiðni frá WOW air á lokametrunum í tilveru flugfélagsins um fjárhagsaðstoð. Samskipti stjórnvalda við WOW air hafi að mestu farið fram í gegnum Samgöngustofu og Isavia. „Það lá samt fyrir að stjórnvöld voru ekki að fara að setja opinbert fé inn í þennan rekstur,“ segir Katrín.
Hún segir að farið hafi verið yfir hina svokölluðu Air Berlin- sviðsmynd, en þýsk stjórnvöld stigu inn með fjármagn þegar það félag var á leiðinni í þrot haustið 2017 og lögðu skiptastjóra félagsins til fé til að halda rekstrinum gangandi þangað til að Lufthansa tæki yfir hluta hans. Forsætisráðherra segir að það hafi hins vegar ekki þótt verjandi að stíga inn í jafn áhættusaman rekstur með þeim hætti og því hafi það ekki verið raunhæfur valkostur.
Áfall starfsfólks stóra málið
Aðspurð um hvort að búið sé að greina áhrifin á íslenska efnahagskerfið segir Katrín að það hafi verið fylgst vel með þróun mála. „Við teljum að hagkerfið sé vel í stakk búið til að takast á við þessa áskorun. Stóra málið í mínum huga er áfallið sem starfsfólk WOW air hefur orðið fyrir og aðrir sem byggt hafa afkomu sína á starfsemi flugfélagsins.“
Hún bendir á að það sé svigrúm í rekstri ríkissjóðs, sem áætlanir hafa gert ráð fyrir að skili umtalsverðum afgangi, til að takast á við breytingar á tekjum hins opinbera. Auk þess hafi verið ráðist í það í fyrra að hækka bætur úr ábyrgðarsjóði launa og atvinnuleysisbætur.