Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segist trúa því að ef þau hefðu fengið aðeins meiri tíma þá hefði verið hægt að klára samningaviðræður við kröfuhafa. Frá þessu greinir hann í samtali við fréttastofu RÚV í dag.
Hann segir að félagið hafi verið í samtali við nokkuð marga aðila í nótt og undir morgun sem því miður hafi ekki heppnast. Hann telur að þeim aðilum sem hann var í viðræðum við hafi verið alvara í samningaviðræðunum en hann segist ekki getað tjáð sig um það hverjir nákvæmlega hafi komið að þessum viðræðum.
Skúli segir jafnframt að ekki sé rétt að WOW air hafi skuldað leigusala 300 milljónir sem hafi verið á gjalddaga á miðnætti í gær sem flugfélagið hafi ekki getað greitt.
Eitt leiðir af öðru
Skúli segir enn fremur að eðlilega hafi menn ætlast til þess að WOW air myndi klára fjármögnun og þegar það heppnaðist ekki þá voru flugvélarnar kyrrsettar.
„Þetta er svolítið þannig að eitt leiðir af öðru. Þegar einn byrjar þá fellur þetta mjög hratt og það var ekkert eitt umfram annað. Menn voru einfaldlega orðnir óþreyjufullir að sjá okkur klára fjármögnunina,“ segir hann í samtali við RÚV.
Hann segist hafa verið njörvaður niður í það sæti að sætta sig við staðreyndir málsins. „Auðvitað er þetta búið að vera mikil barátta. Ég er líka óheyrilega þakklátur fyrir þann mikla stuðning og hvatningu frá starfsfólki mínu, frá fólki út um allan bæ og fjölda landa um það að halda áfram og gefast ekki upp,“ segir hann og bætir því við að honum finnist leiðinlegt og sorglegt að bregðast því fólki.
Hefði átt að hefja endurskipulagningu fyrr
Skúli segir að hann hafi alltaf ætlað að klára viðræðurnar og að það hafi því ekki verið ábyrgðalaust að segja fólki að treysta WOW air. Hann segist stoltur af þeirri vinnu sem hafi verið unnin hjá fyrirtækinu.
Hann bendir á að flugumhverfið sé búið að vera sérstaklega erfitt í vetur og að fjöldi flugfélaga hafi því miður farið í þrot. Ytri skilyrði hafi því líka verið erfið.
„Það sem ég hefði átt að gera var að hefja þessa endurskipulagningu fyrr. Því að árangurinn sem við erum að sjá núna eftir að hafa skilað breiðþotunum og tekið til í rekstrinum og farið aftur í lággjaldabúninginn er strax orðinn miklu betri en hann var í haust,“ segir hann. Þannig hafi hann átt að byrja á þessu fyrir ári síðan.
Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni á vef RÚV.