„Gagnvart mínum skjólstæðingum þá erum við bara að vega og meta,“ sagði Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Stundarinnar og Reykjavík Media, um hvort að fleiri skref á borð við skaðabótamál verði stigin vegna niðurstöðu Hæstaréttar fyrir rúmri viku í lögbannsmálinu svokallaða.
Í dómnum, sem féll 22. mars síðastliðinn, var öllum kröfum GlitnisHoldCo um að hefta tjáningarfrelsi fjölmiðlanna til að vinna efni úr gögnum sem áttu uppruna sinn innan úr kerfum Glitnis í málinu hafnað.
Sigríður Rut var gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í liðinni viku og ræddi þar dóm Hæstaréttar.
Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Sigríður Rut sagði í þættinum sagði að henni fyndist rétt að taka fram að fyrir liggi lagafrumvarp sem muni breyta aðgerðum eins og þeim sem beitt var í málinu. Ef einhver fer fram á lögbann á tjáningu þá mun ákvörðun um málið færast frá sýslumanni og til dómstóla verði frumvarpið að lögum.
Þrír hlutir hafi verið að í því máli sem Hæstiréttur dæmdi nýverið í. Í fyrsta lagi að starfsmaður framkvæmdavaldsins hefði tekið ákvörðun um að stöðva umfjöllunina. Enginn dómstóll á nokkru stigi féllst á neinar kröfur um lögbannið. „Þarna var einn starfsmaður sem tók þessa ákvörðun og stoppaði þessa umfjöllun í heilt ár. Það er mjög alvarlegt.“
Nú sé hins vegar búið að lagfæra þetta í framkomnu frumvarpi þannig að málið fari strax til dómstóla.
Hún bindur vonir við það að frumvarpið lagfærði málsmeðferðina og tímann sem fer í það.
Í þriðja lagi gerir hún athugasemd við aðferðarfræðina í málinu. Það eigi ekki að gilda sömu sjónarmið um óþekktan borgara og ráðherra sem sé í framboði. „Þú getur ekki lagt þetta að jöfnu innan sömu dómkröfunnar.“
Í málinu hafi dómkrafan verið allt og víðtæk vegna þess að það var verið að krefjast þess að allt sem hugsanlega gæti verið í gögnum Glitnis væri bannað.