Mesta hagnaðarfyrirtæki heimsins í fyrra var olíurisinn í Sádí-Arabíu, Aramco. Þetta kom í ljósi í dag þegar ítarlegar rekstrarupplýsingar um fyrirtækið voru birtar, en félagið er á leið á markað og því þykir birting upplýsinganna merkileg.
Hagnaður fyrirtækisins í fyrra var 111,1 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 13.665 milljörðum króna.
Það er upphæð sem dugar til að kaupa allt húsnæði á Íslandi tvisvar miðað við fasteignamat ársins 2018.
Yfirvöld í konungsríki Sádí-Arabíu fengu til sín um 102 milljarða Bandaríkjadala, jafnvirði 12.300 milljarða króna, í skatttekjur frá Aramco í fyrra.
Við skráningu félagsins á markað stendur til að selja hlut af hlutabréfum í félaginu til alþjóðlegra fagfjárfesta, og hafa yfirvöld sagt að við skráninguna verði félagið langsamlega verðmætasta skráða félag í heiminum, en þau vilja að félagið verði með verðmiða upp á tvö þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 246 þúsund milljörðum króna.
Aramco framleiddi um tíu prósent af olíu heimsmarkaðar í fyrra.