Forsætisnefnd, skipuð 7. og 8. varaforseta, þeim Steinunni Þóru Árnadóttur og Haraldi Benediktssyni, afgreiddi á fundi sínum þann 25. mars síðastliðinn erindi sem henni barst um meint brot Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, alþingismanns og formanns Miðflokksins, á siðareglum fyrir alþingismenn í tilefni af ummælum hans í fréttaviðtali í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 3. desember 2018 og síðari samskipti af því tilefni. Í erindinu var vísað til þess að hátterni þingmannsins hafi verið andstætt 5., 7. og 8. gr. siðareglna fyrir alþingismenn.
Niðurstaða forsætisnefndar er sú að erindið gefi ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar, sbr. 1. málslið 1. mgr. 18. gr. siðareglna fyrir alþingismenn.
Í erindi málshefjanda, sem ekki er nafngreindur, vísar hann til þess að í viðtalinu hafi þingmaðurinn haldið því fram að samtöl af því tagi sem hljóðrituð voru, „... þar sem alþingismenn níða og niðurlægja aðra þingmenn á óviðeigandi og klámfenginn hátt, væru og hefðu um langa hríð verið alsiða meðal þingmanna allra flokka og að orðbragðið væri stundum jafnvel „töluvert grófara““ Hafi þingmaðurinn með þessum orðum sínum brotið gegn hátternisskyldum sínum og þeim meginreglum sem gilda um hátterni alþingismanna samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.
Forsætisnefnd athugaði frétt RÚV frá téðum degi, 3. desember 2018 þar sem fyrirsögnin var „Orðræða sexmenninganna óverjandi“. Fréttin hefst á því að farið var yfir viðbrögð forseta Alþingis á þingfundi fyrr um daginn, þar sem hann hafi „[beðið] þjóðina alla afsökunar á óráðshjali þingmanna á barnum Klaustri ...“. Þá var greint frá „rafmagnaðri stemningu“ í þingsal við upphaf þingfundar, að tveir þingmenn Miðflokksins hafi farið í leyfi og þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson væru orðnir óbreyttir þingmenn. Þar á eftir kom viðtalið við Sigmund Davíð, þar sem hann var krafinn viðbragða við atburðum dagsins og spurður um afstöðu sína til þeirra ummæla sem fjölmiðlar höfðu greint frá á hljóðupptökum. Í svörum sínum vísaði hann meðal annars til reynslu sinnar af hátterni og ummælum annarra þingmanna og að gæta beri samræmis, en jafnframt að slíkt réttlæti ekki þau ummæli sem viðhöfð hafi verið. Ummæli þingmannsins fólu í sér, samkvæmt forsætisnefnd, fullyrðingar um atvik, án frekari tilgreiningar, sem hann telur að hann hafi sjálfur upplifað.
Að mati forsætisnefndar fólust í ummælum Sigmundar Davíðs staðhæfingar um atvik, sem hann fullyrti að hefðu verið sambærileg þeim sem fjölmiðlar hefðu með ítarlegum hætti fjallað um í hljóðupptökunum. „Líta verður til þess að ummælin fólu í sér andsvör hans við þeirri umfjöllun. Þegar það er virt og við hvaða aðstæður þau voru látin falla er ekki unnt að fullyrða að hátterni þingmannsins hafi verið andstætt hátternisskyldum hans,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.
Hægt er að lesa niðurstöðu nefndarinnar hér.