Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að aðalatriðið í lífskjarasamningnum sem undirritaður var í gærkvöldi sé að verkalýðsforystan, atvinnurekendur og ríkið séu að snúa bökum saman um það að skynsamlegasta leiðin til að bæta lífskjör landsmanna allra sé samsett lausn. Þetta kom fram í viðtali við Halldór í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun.
Í lausninni felst að hækka lægstu laun, stuðla að auknum sveigjanleika til þess að hjálpa fólki að samþætta vinnu og fjölskylduábyrgð, stuðla að jákvæðu umhverfi þannig að hér geti myndast svigrúm til vaxtalækkunar til framtíðar og að ríkið lækki skatta og mest á þá sem tekjulágir eru. Halldór segir að þetta sé grunurinn að lífskjarasamningnum enda sé þetta aðgerð sem beinist fyrst og fremst að lágtekjufólki.
Samfélagssáttmáli um að hækka lægstu laun
Halldór segir jafnframt að núna sé ekki rétti tíminn fyrir efri millitekju- og hátekjufólk til þess að sækja sér launahækkanir. Heldur sé með samningnum verið að búa til samfélagssáttmála um það að hækka laun þeirra sem lægst laun hafa en aðrir fái í sinn skaut aðra hluti sem kynntir eru með samningnum. Hann segir að allir Íslendingar fái launahækkun í gegnum lífskjarasamninginn en það sé hins vegar með þeim hætti að þetta séu krónutölusamningar. Það er að segja þetta eru krónutöluhækkanir á hverju ári 2019 til 2022 og krónutölurnar eru byggðar upp með þeim hætti að hæsta hlutfallshækkunin fer til þeirra sem eru með lægstu launin.
Enn fremur segir hann að með þessum samningi sé brotið blað í gerð kjarasamninga hér á landi að tvennu leyti. Annars vegar að nú séu kjarasamningarnir beintengdir efnahagsþróun á Íslandi, á árunum 2020 til 2022. Hann segir að það þýði að launahækkanirnar séu ekki föst stærð heldur taka þeir mið af hagvexti í landinu. Í annan stað er með samningnum kynnt launaþróunartrygging sem á að tryggja að þeir launamenn sem eru á töxtum á launatöflum stéttarfélaga séu hluti af því launaskriði sem geti átt sér stað á almennum vinnumarkaði. Hann segir að þannig muni taxtalaunafólk ekki lengur sitja eftir í almennri launaþróun eins og gerst hefur frá ári til árs, áratugi aftur í tímann.
Það þýði að ef efsta lagið í samfélaginu sæki sér meiri launahækkanir en innstæða sé fyrir, þvert á markmið samningsins, þá framkalli það umsvifalaust launahækkun hjá taxtahópnum. Þeir tekjulægstu munu því fylgja almennri launaþróun í samfélaginu, ofan á þær launahækkanir sem kjarasamningarnirtryggi þeim.
Telja að þessi samningur skapi skilyrði fyrir vaxtalækkun
Halldór bendir á að lífskjarasamningurinn sé sáttmáli um að nú sé verið að beina því svigrúmi sem sé til staðar í hagkerfinu á lægri enda tekjustigans. Þá sé á sama tíma verið að kynna til sögunnar fjölda margar aðgerðir sem gagnist öllum heimilum landsins „Við biðjum fólk að koma með okkur í þessa vegferð að byggja hérna undir áframhaldandi bætt lífskjör á Íslandi í gegnum þennan samning sem kynntur var í gærkvöldi,“ segir Halldór.
Hann segir jafnframt að með samningnum séu allir aðilar að axla ábyrgð. Hið opinbera, atvinnurekendur og verkalýðsfélögin séu að snúa bökum saman með það fyrir augum að bæta kjör lágtekjufólks. Auk þess segist hann vilja hrósa verkalýðshreyfingunni fyrir að taka tillit til þess að staðan í hagkerfinu sé mjög tvísýn núna.
Halldór segir að í sameiningu hafi þessir aðilar samið um ábyrgan samning sem skapi skilyrði fyrir Seðlabankann til að lækka vexti. „Við teljum að þessi samningur sé það ábyrgur að hann skapi skilyrði fyrir vaxtalækkun í samfélaginu, sem er gríðarlegt hagsmunamál ekki aðeins fyrir heimilin en líka fyrirtækin.“