Mynd: Samsett

90 þúsund króna launahækkun á tæpum fjórum árum en lítil hækkun í ár

Í kjarasamningum sem undirritaðir voru á ellefta tímanum, og eru til tæplega fjögurra ára, er uppsagnarákvæði sem virkjast ef Seðlabanki Íslands lækkar ekki stýrivexti. Launahækkanir sem koma til framkvæmda í ár verða mjög lágar. Það er framlag verkalýðshreyfingar vegna gjaldþrota og uppsagna í ferðaþjónustu.

Þeir sem starfa á töxtum munu fá 90 þús­und króna launa­hækk­anir á næstu þremur árum og átta mán­uð­um. Þessar hækk­anir munu koma í fjórum skref­um. Hækk­unin á árinu 2019 verður lág vegna þeirra aðstæðna sem eru í íslensku hag­kerfi sem stend­ur, en það hefur kólnað veru­lega á skömmum tíma vegna loðnu­brests og gjald­þrots WOW air sem leitt hefur af sér for­dæma­lausar upp­sagn­ir. Auk þess á hóf­söm launa­hækkun í ár að skapa skil­yrði fyrir Seðla­banka Íslands til að lækka stýri­vexti.

Þetta er meðal þess sem samið var um í kjara­samn­ingum milli sam­flots­fé­lag­anna Efl­ing­ar, VR, Fram­sýn­ar, Lands­sam­bands íslenzkra verzl­un­ar­manna og verka­lýðs­fé­laga Akra­ness og Grinda­víkur við Sam­tök atvinnu­lífs­ins sem und­ir­rit­aður var í dag.

Þær krónu­tölu­hækk­anir sem náð­ust eru lægri en stefnt var að sam­kvæmt fram­lögðum kröfu­gerðum verka­lýðs­fé­lag­anna, en þar var stefnt að því að ná fram 125 þús­und króna hækk­unum á þremur árum. Allar launa­hækk­anir sem samd­ist um eru hins vegar krónu­tölu­hækk­anir og við þær bæt­ast sér­stakar krónu­tölu­hækk­anir á taxta.

Til við­bótar hefð­bundnum nafn­launa­hækk­unum koma til ýmis atriði sem munu auka ráð­stöf­un­ar­tekjur og eru þannig ígildi launa­hækk­ana. Í samn­ingnum er til að mynda ákvæði sem á að tryggja að hag­vaxt­ar­aukn­ing skili sér til launa­fólks í formi krónu­tölu­hækk­ana. Miðað við með­al­hag­vöxt síð­ustu 30 ára gæti ábati af slíkum hækk­unum skilað 10-24 þús­und krónum til við­bótar á mán­uði í heild­ar­hækkun launa á samn­ings­tím­an­um.

Mikla athygli vekur að ein af for­sendum samn­ings­ins er að Seðla­banki Íslands lækki stýri­vexti, en samn­ings­að­ilar voru sam­mála um að kjara­samn­ing­ur­inn skapi aðstæður til þess. Það muni leiða til þess að útgjöld skuld­settra heim­ila muni lækka. Það muni leigu­verð líka gera í ljósi þess að fjár­magns­kostn­aður verði minni. Í samn­ingnum er sér­stakt for­sendu­á­kvæði um upp­sögn hans ef vaxta­lækk­anir verða ekki að veru­leika.

Seðla­banki Íslands er ekki aðili að gerð kjara­samn­inga og nýtur fulls sjálf­stæðis í störfum sínum sam­kvæmt lög­um. Meg­in­mark­mið hans er stöðugt verð­lag og til að ná því mark­miði skil­greinir Seðla­banki Íslands hlut­verk sitt þannig að hann eigi að reyna að halda verð­bólgu að jafn­aði sem næst 2,5 pró­sent verð­bólgu­mark­miði. Ekk­ert er að finna um hlut­verk hans við að liðka fyrir gerð kjara­samn­inga með vaxta­lækk­unum í lögum um starf­semi Seðla­bank­ans.

Samið um styttri vinnu­viku

Í kjara­samn­ing­unum er einnig samið um styttri vinnu­viku með því að taka upp það sem er kallað „virkan vinnu­tíma“ sem verður að jafn­aði 36 stundir á viku. Hana á að inn­leiða með því að gera vinnu­tíma fólks sveigj­an­legri með því að bjóða því að kjósa sjálft um hvaða fyr­ir­komu­lag henti best á hverjum vinnu­stað.

Lyk­il­at­riði að því að ná kjara­samn­ing­unum saman var svo aðkoma stjórn­valda með aðgerð­ar­pakka sem telur marga tugi aðgerða. Sumar þeirra hafa þegar verið lagðar fram, aðrar eru nýjar útfærslur á gömlum hug­myndum og sumar eru ein­fald­lega end­ur­unnar hug­myndir ann­arra stjórn­mála­flokka. En hluti aðgerð­ar­pakk­ans, sem rík­is­stjórnin verð­lagði í gær á 100 millj­arða króna, en er nú sagður 80 millj­arða króna virði, er vissu­lega nýr.

Drífa Snædal, for­seti Alþýðu­sam­bands Íslands, hefur stýrt við­ræðum við stjórn­völd í kjara­samn­ing­um.  Kjarn­inn greindi frá því í morgun að sam­kvæmt þeim til­lögum sem til stóð að kynna á blaða­manna­fundi í gær klukkan 18:30, en hætt var við á síð­ustu stundu, felst meðal ann­ars í aðgerð­unum þróun Keldna­lands undir íbúða­byggð, hækkun ráð­stöf­un­ar­tekna lægsta tekju­hóps­ins um tíu þús­und krónur á mán­uði með skatta­lækk­un­um, úrræði fyrir fyrstu kaup­endur hús­næðis um að fá sér­stök lán eða til að nýta hluta af líf­eyr­is­ið­gjalda­greiðslum sínum til að kom­ast inn á hús­næð­is­markað og fram­leng­ing á nýt­ingu sér­eign­ar­sparn­aðar til að greiða niður hús­næð­is­lán til sum­ars­ins 2021.

Ósam­ræmi er á milli þeirra gagna sem Kjarn­inn hefur undir höndum um hvort að skatt­kerf­is­breyt­ing­arnar muni skila níu eða tíu þús­und krónum til lægstu tekju­hópanna en í þeim pakka sem til stóð að kynna í gær var talan tíu þús­und krón­ur.

Skatt­kerf­is­breyt­ingar og hækkuð skerð­ing­ar­mörk

Rík­is­stjórnin kynnti skatta­breyt­ing­ar­til­lögur í febr­úar sem féllu í grýttan jarð­veg hjá verka­lýðs­for­yst­unni. Þær fól í sér nýtt skatt­þrep fyrir lægstu tekj­urnar og að skatt­­leys­is­­mörk og per­­són­u­af­­sláttur og tekju­­mörk skatt­­þrepa verði látin fylgja þróun breyt­inga á vísi­­tölu neyslu­verðs og þróun fram­­leiðni. Þessar breyt­ingar áttu að leiða til þess að jöfn krónu­tölu­lækkun á skatt­byrði myndi eiga sér stað upp allan tekju­stig­ann, en vænt­ingar verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar voru að meira yrði gert fyrir lægri tekju­hópa.

Þær breyt­ingar sem gripið verður til varð­andi tekju­skatt eru að uppi­stöðu í sam­ræmi við áður fram settar til­lögur rík­is­stjórn­ar­innar en í stað þess að ráð­stöf­un­ar­tekjur tekju­lægsta hóp lands­manna verði auknar um 6.750 krónur á mán­uði verða þær auknar um tíu þús­und krónur á mán­uði.

Sam­kvæmt heim­ildum Kjarn­ans er einnig á borð­inu vil­yrði um að hækka skerð­ing­ar­mörk barna­bóta í 325 þús­und krónur á mán­uði á næsta ári. Sam­kvæmt þeim til­lögum munu barna­bætur ein­stæðra for­eldra til að mynda hækka um allt að 9.500 krónur á mán­uði og fyrir for­eldra í sam­búð geta þær hækkað um allt að 14 þús­und krónur á mán­uði. Þær tölur miða við að við­kom­andi eigi tvö börn og að annað þeirra sé yngra en sjö ára.

Vert er að taka fram að Sam­fylk­ingin lagði fram til­lögur um að hækka barna­bætur á haust­þingi sem voru felld­ar.

Þá eru áður kynntar til­lögur um að lengja fæð­ing­ar­or­lof úr níu í tíu mán­uði á árinu 2020 og í tólf mán­uði frá byrjun árs 2021 hluti af pakk­anum sem lagður hefur verið fram.

„Til­greind sér­eign“ og fyrstu kaup­endur

Fjöl­margar til­lögur sem snúa að hús­næð­is­málum er að finna í pakka rík­is­stjórn­ar­innar til að liðka fyrir gerð kjara­samn­inga. Ein stærsta hús­næð­is­að­gerðin felst í því að ríkið og Reykja­vík­ur­borg eiga að kom­ast að sam­komu­lagi um að hefja skipu­lagn­ingu Keldna­lands, risa­stórs land­svæðis innan borg­ar­markanna sem er í eigu íslenska rík­is­ins. Vert er að taka fram að upp­bygg­ing í Keldna­landi var einnig hluti af áætl­unum aðgerð­ar­hóps síð­ustu rík­is­stjórnar sem sat í nokkra mán­uði á árinu 2017.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur leggur fram aðgerðarpakka sem hún metur á 100 milljarða króna til að liðka fyrir gerð kjarasamninga.
Mynd: Bára Huld Beck.

Þá á að veita heim­ild til þess að skipta upp lög­bundnu iðgjaldi, sem er 15,5 pró­sent, þannig að 3,5 pró­sent þess verði skil­greint sem „til­greind sér­eign“. Þann hluta verður hægt að nota til hús­næð­is­kaupa. Þessi leið er í sam­ræmi við frum­varp sem þing­menn frá Við­reisn, Pírötum og Flokki fólks­ins lögðu fram fram í haust og Þor­steinn Víglunds­son er fyrsti flutn­ings­maður af.

Sú heim­ild sem er við lýði nú um að nota sér­eign­ar­sparnað til að greiða inn á lán, en á að renna út í júlí næst­kom­andi, mun verða fram­lengd í tvö ár, eða fram á mitt ár 2021.

Tak­mörkun á veit­ingu verð­tryggðra lána

Þá fór hluti for­ystu­manna verka­lýðs­fé­lag­anna fram á að tak­mark­anir á vægi verð­trygg­ingar lána yrðu hluti af fram­lagi stjórn­valda inn í kjara­við­ræð­ur. Á meðal þess sem stjórn­völd hafa skuld­bundið sig til að gera í þeim mála­flokki er að banna 40 ára verð­tryggð jafn­greiðslu­lán frá byrjun næsta árs.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem áform í þessa veru hafa verið kynnt. Sam­bæri­legt bann var í frum­varpi sem lagt var fram í ágúst 2016 af þáver­andi rík­is­stjórn Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar. Ýmsar und­an­þágur áttu þá að vera frá bann­inu, sem gerðu það að verkum að 75 pró­sent lands­manna gætu í raun tekið lánin áfram. Sömu­leiðis verður lág­marks­láns­tími verð­tryggðra lána lengdur úr fimm árum í tíu ár.

Þeir sem taka 40 ára verð­tryggð jafn­greiðslu­lán eru þeir hópar sem ráða við lægstu afborg­anir af hús­næð­is­lán­um, þ.e. lægstu tekju­hóp­arn­ir.

Þá á að grund­valla verð­trygg­ingu við vísi­tölu neyslu­verðs án hús­næð­isliðar frá og með árinu 2020. Hús­næð­is­verð hefur hækkað skarpt á und­an­förnum árum en þrátt fyrir það hefur verð­bólga verið um eða undir verð­bólgu­mark­miðum Seðla­banka Íslands. Í síð­asta mán­uði lækk­aði hús­næð­is­verð á höf­uð­borg­ar­svæð­inu og því virk­aði hús­næð­islið­ur­inn til lækk­unar á vísi­tölu neyslu­verðs.

Í pakk­anum er einnig vil­yrði um að klára skoðun á því hvort að banna eigi alfarið verð­tryggð hús­næð­is­lán fyrir lok árs 2020.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar