Gylfi Zoega, hagfræðingur við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, segir að nú þurfi að vinna að því að auka traust milli stofnana í samfélaginu, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins. Þetta kom fram í viðtali við Gylfa á Rás 1 í morgun.
Fram kom í frétt Kjarnans í gær að ef meginvextir Seðlabanka Íslands, oft kallaðir stýrivextir, lækka ekki um 0,75 prósentustig fyrir september 2020 eru forsendur kjarasamninga sem undirritaðir voru í fyrrinótt brostnar. Þegar kjarasamningarnir voru kynntir kom fram að ein af forsendunum sem þeir hvíldu á væri sú að vextir myndu lækka „verulega“ fram í september 2020 og haldast lágir út samningstímann.
Gylfi segir að ekki sé hægt að leggja slíkar kröfur á aðila sem eru ekki hluti af samningsaðilum og telur hann slíkar kröfur vera dæmi um skort á trausti sem ekki sé hjálplegt.
Getur ekki skuldbundið sig til að hafa vexti á ákveðnu stigi
Gylfi bendir enn fremur á að lög gildi um Seðlabanka Íslands þar sem hann eigi að stuðla að stöðugu verðlagi, hann geti ekki skuldbundið sig til að hafa vexti á ákveðnu stigi.
Bankinn muni þannig eftir sem áður fara að lögum og gera það sem þarf til að verðbólga sé lág og að markmiði. „Það er gert til þess að velferð þjóðarinnar verði sem mest,“ segir Gylfi og bætir því við að þeir sem eru með lægstu launin græði jafnframt mest á því.
Góðar fréttir að búið sé að semja
Gylfi segir það virkilega góðar fréttir að búið sé að semja þannig að þeir sem lægst hafa launin fái hlutfallslega mestu hækkunina. Verið sé að hjálpa þeim sem hjálpa þurfi, án þess að stefna stöðugleika í samfélaginu í hættu.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í samtali við RÚV í gær að það væri óheppilegt að í kjarasamningum væri ákvæði sem heimili uppsagnir ef vextir færu upp fyrir ákveðið stig. „Auðvitað geta aðilar vinnumarkaðarins skrifað allt inn í sína kjarasamninga. Þeir geta sagt að ef sólskinsstundir í Reykjavík sumarið 2020 séu komnir fyrir neðan ákveðið stig að þá verði samningum sagt upp. Það er bara þeirra réttur,“ sagði Már. Hann sagði þó ljóst að eftir að þessir kjarasamningar hafa verið undirritaðir væri svigrúm til vaxtalækkana. Hins vegar ættu vextir að vera hagstjórnartæki og ekki hægt að skuldbinda þá til lengri tíma.
Verðbólgan ætti að geta farið niður
„Þetta er svona svipað og þú værir að keyra bíl og ætlaðir til Akureyrar og myndir setja það skilyrði að þú mættir ekki snúa stýrinu meira en 30 gráður í aðra hvora áttina. Þú færir fljótt út af,“ sagði Már við RÚV. Hann sagði þetta ákvæði þó vera í lagi á meðan það er einungis meðal aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld eigi ekki hlut að því. „Þá er þetta ekki þannig að það sé verið að taka sjálfstæðið af Seðlabankanum. Hann gerir það sem hann á að gera samkvæmt lögum.“ Már sagði ákvæðið ekki valda slíkum skaða. Hann tók líka skýrt fram að aðilar vinnumarkaðarins gætu haft væntingar um það, eftir fall WOW og önnur áföll og þegar kjarasamningar hafa verið undirritaðir, að það væru aðstæður fyrir vaxtalækkunum.
Már sagði að í heildina væri undirritun kjarasamninganna í fyrradag góðar fréttir. Launahækkanirnar væru talsvert undir því sem hann hafði óttast. Verðbólgan ætti að geta farið niður og verðbólguvæntingar líka. „Enda hefur það birst á skuldabréfamarkaðnum síðustu daga að krafan á óverðtryggðum lengir ríkisskuldabréfum hefur lækkað allverulega sem bendir til þess að verðbólguálagið er að lækka og verðbólguvæntingar einnig,“ sagði Már. Hann benti á að launahækkanir væru meiri á síðari árum samningsins en á heildina litið væri verið að stíga jákvæð skref.
Viðbrögð Seðlabankans ekki boðleg
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði viðbrögð Seðlabankans einfaldlega ekki boðleg í frétt RÚV í gær. Hann sagði að bankinn hefði í gegnum tíðina ítrekað stillt verkalýðshreyfingunni upp við vegg. Hótað því að hækka vexti ef samið yrði um of miklar launahækkanir og hefði hækkað vexti þrisvar eftir kjarasamninga árið 2015 og étið upp nær allan kaupmáttinn.
„Að stíga síðan fram eins og einhverjar prímadonnur sem má ekki anda á. Mér finnst þetta einfaldlega ekki boðlegur málflutningur,“ sagði Ragnar Þór.
Skortur á skilningi og trausti
Gylfi segir þessi viðbrögð Ragnars Þórs vera skort á skilningi og trausti og að mikilvægt sé að stofnunum sé treyst.
Hann bendir á að ef hagvöxtur er mikill þá þurfi að hækka vexti, það sé eitt stjórnunartæki af mörgum sem Seðlabankinn hefur. „Við verðum að halda verðbólgu á markmiði. Það er lögbundið hlutverk stofnunarinnar. Hófleg verðbólga er öllum fyrir bestu,“ segir hann.
Gylfi tekur það fram að með þessum nýju kjarasamningum sé búið að auðvelda að ná þessum markmiðum og lítur hann svo á að þetta geti verið ákveðin tímamót. Þarna sé samvinna milli stofnana, verkalýðshreyfingarinnar og atvinnulífsins.