Skúli Mogensen, stofnandi og fyrrverandi forstjóri flugfélagsins WOW air, hyggst efna til hópfjármögnunar á erlendum hópfjármögnunarvettvangi, svipuðum Karolina fund, til þess að endurreisa flugfélagið WOW air. Markmiðið er að safna 670 milljónum króna en lágmarksfjárhæðin sem hægt verður leggja til flugfélagsins verður um 200 til 250 þúsund íslenskra króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Leita af innspýtingu upp á 4,8 milljarða króna
Greint var frá því í síðustu viku að Skúli væri að reyna afla fjármagns til að endurvekja flugfélagið WOW air sem tekið var til gjaldþrotaskipta fyrir 11 dögum. Í fjárfestakynningu fyrir nýja flugfélagið kom fram að Skúli og aðrir lykilstarfsmenn WOW air væru að leita að 40 milljónir Bandaríkjadala innspýtingu i félaginu, sem nemur um 4,8 milljörðum króna, til að standa straum af kostnaði við upphaf rekstursins.
Í kynningunni kom fram að nýja flugfélagið muni hafa lággjaldastefnu í hávegum líkt og á fyrstu árum WOW air. Þá segir að Skúli og aðrir sem munu koma að stofnun félagsins muni eiga 51 prósent hlut í flugfélaginu en fjárfestar sem leggi því til 40 milljónir Bandaríkjadala 49 prósent. Auk þess sé stefnt að því að kaupa helstu eignir úr þrotabúi WOW air, þar á meðal vörumerkið.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa skiptastjórar þrotabús WOW air tekið vel í hugmyndir um að Skúli og þeir lykilstarfsmenn sem taka þátt í fjármögnuninni taki yfir kröfur um tvö hundruð starfsmanna um vangoldin laun og fyrirgeri þar með rétti sínum á þriggja mánaða uppsagnarfresti sem þeir eiga inni hjá flugfélaginu. Þá segir að þetta sé „samfélagslega ábyrgt“ og til þess fallið að almennir kröfuhafar eigi meiri möguleika á heimtum úr þrotabúinu. Í staðinn fái Skúli að halda vörumerkinu WOW. Tímaramminn er þó sagður naumur þar sem flugvélarnar sem nýja flugfélagið vill taka á leigu muni ekki standa auðar mikið lengur en út vikuna.