Einstaklingar geta verið úrskurðaðir í allt að þriggja ára atvinnurekstrarbann, séu þeir fundnir sekir um brot gegn 262. grein almennra hegningarlaga. Þetta kemur fram í frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur sem legið hefur fyrir í Samráðsgáttinni frá 22. mars síðastliðnum.
Frumvarpið er ein af þeim aðgerðum stjórnvalda sem taldar eru til stuðnings hinum svokölluðu lífskjarasamningum sem aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir í síðustu viku. Í aðgerðarpakka stjórnvalda kemur fram skuldbinding um að ráðast gegn kennitöluflakki.
Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og Samtök atvinnulífsins (SA) hafa áður farið fram á að farið verði í aðgerðir gegn kennitöluflakki en í kynningu samtakanna frá 2017 lögðu þau meðal annars til að hægt yrði að banna einstaklingum tímabundið að koma að rekstri félaga með takmarkaða ábyrgð. Þá lögðu þau til að heimild ráðherra til að slíta félögum yrði færð frá ráðherra til ríkisskattstjóra, auk þess sem ríkisskattstjóra yrði falið að úrskurða um atvinnurekstrarbann.
Tillögur ASÍ og SA of íþyngjandi
Í frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, eru tillögurnar hinsvegar sagðar falla illa að lögbundnu hlutverki ríkisskattstjóra að taka slíka ákvörðun. Samkvæmt frumvarpinu yrði það í höndum dómstóla að úrskurða einstaklinga sem gerst hafa brotlegir við 262. grein almennra hegningarlaga í tímabundið atvinnurekstrarbann. Í greinargerð með frumvarpinu er það sagt falla betur að almennri málsmeðferð á Íslandi, auk þess sem ríkisstjórninni þykir tillögur ASÍ og SA of íþyngjandi. Því var atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu falið í samvinnu við dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið að skoða hvort hægt væri að útfæra tillögur samtakanna á annan hátt.
ASÍ og SA skiluðu sameiginlegri umsögn um frumvarpið. Þau telja frumvarpið ekki ganga nægilega langt og telja það farsælla að heimild til að svipta einstaklinga atvinnurekstrarheimild sé ekki bundin við sakamál. Slík heimild hefur meðal annars verið lögfest í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Samtökin segja að ein af ástæðum þess að ekki hafi náðst viðunandi árangur í baráttunni gegn kennitöluflakki sé hve erfitt sé að færa sönnur á refsiverða háttsemi. Í sakamálum geti einnig liðið langur tími frá því að brot er framið og þar til dómur fellur.
Fagna breytingum á gjaldþrotalögum
Samtökin fagna því þó að vinna sé hafin innan ríkisstjórnarinnar við breytingar á gjaldþrotalögum sem ætlað er að skapa kröfuhöfum og samfélaginu betri vernd. Þá fagna þau því einnig að 262. grein almennra hegningarlaga nái einnig til skyldutrygginga lífeyrisréttinda þar sem í dag hafi það engar lagalegar afleiðingar að skilja lífeyrisiðgjöld eftir í eignalaus búi.
Samkvæmt kynningu ASÍ og SA frá 2017 töldu 75% fyrirtækja árið 2005 sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum kennitöluflakks. Þar kemur einnig fram að þau telja skort á þekkingu vera hluta vandans og leggja til að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins vinni sameiginlega að „uppbyggingarlegri fræðslu”.