Sonur Gunnars Braga Sveinssonar þingmanns Miðflokksins fótbrotnaði illa í dráttarvélarslysi sem er talin helsta ástæðan fyrir því að Gunnar Bragi tók sér leyfi frá þingstörfum. Þetta er samkvæmt heimildum Vísis.is.
Fram kom í fréttum fyrir helgi að Gunnar Bragi hefði farið í leyfi frá þingstörfum en ekki lá fyrir hver ástæðan var fyrir leyfinu.
Gunnar Bragi tilkynnti um leyfið í tölvupósti og nefndi að Þorsteinn Sæmundsson og Anna Kolbrún Árnadóttir myndu leysa hann af sem þingflokksformann þar til Bergþór Ólason kemur heim en hann er erlendis. Una María Óskarsdóttir tekur sæti Gunnars Braga á Alþingi, sem varaþingmaður.
Samkvæmt heimildum Vísis fékk slysið mjög á Gunnar, „en sonur hans umræddur er fjölskyldumaður; á þrjú ung börn og vildi Gunnar Bragi fara norður, hvar sonur hans er búsettur og rekur bú og vera til staðar. Slysið var fyrir um viku,“ segir í frétt Vísis.