Alls segjast 55 prósent aðspurðra í nýrri könnun MMR vera andvígir innflutningi á fersku kjöti frá löndum Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) til Íslands. Alls sögðust 27 prósent vera fylgjandi slíkum innflutningi. 17 prósent aðspurðra tók ekki afstöðu.
Andstaðan er langmest á meðal kjósenda Framsóknarflokks (81 prósent), Miðflokksins (80 prósent) og Vinstri grænna (78 prósent). Auk þess var rúmur helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins andvígur slíkur innflutningi, eða 55 prósent.
Kjósendur VIðreisnar voru mest fylgjandi innflutningi á fersku kjöti (68 prósent) og þar á eftir komu kjósendur Samfylkingarinnar (51 prósent). Kjósendur Pírata voru með ólíkar meiningar, en 46 prósent þeirra voru fylgjandi innflutningi, 14 prósent tóku ekki afstöðu og 40 prósent voru á móti.
Eldra fólk var mun líklegra til að vera andsnúið innflutningi en það yngra. Þannig voru 70 prósent 68 ára og eldri andvígir honum en 49 prósent 30-49 ára.
Andstaðan við innflutning á fersku kjöti var mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Alls sögðust 69 prósent landsbyggðarfólks vera andvíg innflutningnum en andstaða mældist hjá 48 prósent höfuðborgarbúa. Þar sögðust 33 prósent vera fylgjandi og 20 prósent tóku ekki afstöðu á meðan að einungis 17 prósent íbúa landsbyggðarinnar studdu innflutninginn en 14 prósent þar tóku ekki afstöðu.
Hömlur eiga að falla niður í haust
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti í febrúar frumvarp sem felur í sér að frystiskylda á innfluttu kjöti verði afnumin og heimilt verði að flytja inn ferskt kjöt, fersk egg og vörur úr ógerilsneyddri mjólk.
Á sama tíma kynnti ráðherra aðgerðaáætlun með mótvægisaðgerðum til þess að verja íslenska búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Nái frumvarpið fram að ganga munu hömlur á innflutningi falla niður þann 1. september næstkomandi.
Árið 2007 tóku íslensk stjórnvöld ákvörðun um að heimila innflutning á ófrystu kjöti frá öðrum ríkjum EES og afnema þannig skilyrði fyrir innflutningi á tilteknum landbúnaðarafurðum innan EES í því skyni að tryggja stöðu Íslands á innri markaði EES. Þá skuldbindingu staðfesti Alþingi árið 2009 en þrátt fyrir það var íslenskum lögum ekki breytt til samræmis við þá skuldbindingu. Á síðustu tveimur árum hafa bæði EFTA-dómstóllinn og Hæstiréttur Íslands staðfest að íslensk stjórnvöld hafi með þessu brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Þá hefur skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna þessa verið staðfest.