Samtökin Orkan okkar hafa sent frá sér áskorun á alla alþingismenn um að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins og beina um leið þeim tilmælum til sameiginlegu EES- nefndarinnar að veita Íslandi undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans í landsrétt á þeirri forsendu að landið sé ekki tengt innri raforkumarkaði ESB. Samtökin opnuðu vefsíðu í dag þar sem almenning býðst að skrifa undir áskorunina.
Þingsályktunartillaga um þriðja orkupakkann lögð fram í dag
Í dag mun Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, leggja fram þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann á Alþingi. Ríkisstjórnin samþykkti þann 22. mars síðastliðinn tillögu ráðherrans um að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um innleiðingu þriðja orkupakkans. Í ályktuninni felst að þær reglur sem eiga við um flutning raforku yfir landamæri eru innleiddar með þeim lagalega fyrirvara að þær komi ekki til framkvæmda nema að Alþingi heimili lagningu raforkustrengs. Þá þarf jafnframt að taka á nýjan leik afstöðu til þess hvort reglurnar standist stjórnarskrá.
Á vefsíðu samtakanna Orkan okkar segir að samtökin hafi verið stofnuð í október í fyrra til þess að „kynna rökin gegn frekari innleiðingu orkulöggjafar ESB hér á landi.“ Í greinargerð með áskoruninni segir að raforkan sé afurð náttúruauðlinda landsins og því telji samtökin það afar mikilvægt að allar ákvarðanir sem teknar eru í raforkumálum þjóni hag þeirra sem búa á Íslandi.
Segja breytingar af hálfu Alþingis falla undir samningsbrot
Jafnframt segir í greinargerðinni að varast eigi að innleiða löggjöf sem sniðin sé fyrir aðstæður í orkumálum sem séu „mjög frábrugðnar“ þeim sem við búum við á Íslandi. Auk þess telja samtökin að með orkupökkum Evrópusambandsins skerðist sjálfsákvörðunarréttur Íslands í raforkumálum. „Löggjöfin er samin af ESB og tekur því ekki mið af vilja íslenskra kjósenda, auk þess sem hluti löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds í orkumálum flyst úr landi. Orkupakkar ESB grafa því undan sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar um eigin auðlindir og geta haft ófyriséð áhrif á lífskjör í landinu. Þessi þróun er líka í hrópandi mótsögn við afstöðu almennings og yfirlýsingar sumra stjórnmálaflokka um að ekki skuli framselja vald í orkumálum til erlendra stofnana, “ segir í greinargerð samtakanna.
Enn fremur segir í greinargerðinni að ólíkt Noregi og Liechtenstein sé Ísland ekki tengt raforkumarkaði ESB og ætti því að krefjast undanþágu frá skyldu til að innleiða löggjöf ESB um raforkumarkaðinn. Nú þegar séu fordæmi og heimildir fyrir slíkum undanþágum í EES-samningnum. Ísland sé til dæmis undanþegið innleiðingum laga um jarðgas, skipaskurði og járnbrautir. Samið séu um slíkar undanþágur í sameiginlegu EES-nefndinni.
Að lokum segir í greinargerðinni að ef þingsályktunartillaga utanríkisráðherra verði samþykkt geti hver sem er kært íslensk stjórnvöld til ESA vegna rangrar innleiðingar á EES-reglum. „Utanríkisráðherra hefur nú lagt fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um að falla frá stjórnskipulegum fyrirvara gagnvart þriðja orkupakka ESB en boðar um leið að löggjöfin verði innleidd í íslensk lög með fyrirvara. Verði þessi leið farin gæti hver sem er kært íslensk stjórnvöld til ESA vegna rangrar innleiðingar á EES-reglum. Af álitsgerð Stefáns Más og Friðriks Árna má álykta að samþykki Alþingi ákvörðun Sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella þriðja orkupakkann inn í EES samninginn, þá verður Ísland að innleiða löggjöf þriðja orkupakkans eins og hún er. Einhliða fyrirvarar eða breytingar af hálfu Alþingis munu falla undir samningsbrot.“